Aðfangadagskvöld hvítasunnu
Laugardagurinn fyrir hvítasunnudag er aðfangadagur hvítasunnu.Vers vikunnar:
„Ekki með valdi né krafti heldur fyrir anda minn, segir Drottinn allsherjar.“ (Sak 4.6b)
Kollekta:
Himneski faðir sem úthellir kærleika þínum í hjörtu barna þinna með heilögum anda, lífga oss með sköpunarkrafti hans og styrk oss með huggun hans. Fyrir Son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 1Kon 19.1-10 (11-13a)
Akab sagði Jesebel frá öllu sem Elía hafði gert og að hann hefði drepið alla spámennina með sverði. Jesebel sendi þá mann til Elía með þessi skilaboð: „Guðirnir geri mér hvað sem þeir vilja, nú og héðan í frá, hafi ég ekki um þetta leyti á morgun farið með líf þitt líkt og líf eins af spámönnunum.“ Elía varð hræddur, bjó sig til ferðar og flýði til að bjarga lífi sínu. Er hann kom til Beerseba í Júda skildi hann þjón sinn þar eftir.
Sjálfur hélt hann eina dagleið inn í eyðimörkina. Þar settist hann undir einiberjarunna og óskaði þess eins að deyja og mælti. „Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt því að ég er engu betri en feður mínir.“ Síðan lagðist hann þar fyrir og sofnaði. En skyndilega kom engill, snerti hann og sagði: „Rís upp og matast.“ Hann litaðist um og sá þá glóðarbakað brauð og vatnskrukku við höfðalag sitt. Hann át og drakk og lagðist síðan fyrir aftur.
Þá kom engill Drottins öðru sinni, snerti hann og sagði: „Rís upp og matast. Annars reynist þér leiðin of löng.“ Hann reis upp, át og drakk. Endurnærður af máltíðinni gekk hann í fjörutíu daga og fjörutíu nætur þar til hann kom að Hóreb, fjalli Guðs. Þar kom hann að helli og svaf þar um nóttina. Allt í einu kom orð Drottins til hans: „Hvað ertu að gera hér, Elía?“ Hann svaraði: „Af brennandi ákafa hef ég lagt mig fram vegna málefnis Drottins, Guðs hersveitanna, því að Ísraelsmenn hafa snúið frá sáttmálanum við þig. Þeir hafa rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði. Ég er einn eftir og nú sitja þeir um líf mitt.“
(Drottinn svaraði: „Far út og gakk fram fyrir auglit Drottins uppi á fjallinu.“ Þá gekk Drottinn þar hjá. Gífurlegur stormur fór fyrir Drottni, svo öflugur að hann molaði fjöll og klauf kletta. En Drottinn var ekki í storminum. Eftir storminn varð jarðskjálfti. En Drottinn var ekki í jarðskjálftanum. Eftir jarðskjálftann kom eldur. En Drottinn var ekki í eldinum. Eftir eldinn kom þytur af þýðum blæ. Þegar Elía heyrði hann huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og tók sér stöðu við hellismunnann.)
Pistill: 1Kor 12.7-13
Þannig birtist andinn sérhverjum manni til þess að hann geri öðrum gagn. Einum gefur andinn gáfu að mæla af speki, öðrum gefur sami andi kraft að mæla af þekkingu. Sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að sannreyna anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal. Öllu þessu kemur eini og sami andinn til leiðar og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni.
Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. Í einum anda vorum við öll skírð til að vera einn líkami, hvort sem við erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og öll fengum við einn anda að drekka.
Guðspjall: Jóh 7.37-39
Síðasta daginn, hátíðardaginn mikla, stóð Jesús þar og kallaði: „Ef nokkurn þyrstir þá komi hann til mín og drekki. Frá hjarta þess sem trúir á mig munu renna lækir lifandi vatns, eins og ritningin segir.“ Þarna átti hann við andann er þau skyldu hljóta sem á hann trúa. Því enn var andinn ekki gefinn þar eð Jesús var ekki enn dýrlegur orðinn.
Sálmur: 333
Send oss nú, faðir, anda þinn
með ástgjöf hans í brjóst vor inn,
svo kenning Krists vér trúum.
Þín heilög rækja lát oss lög
og lífsins orð þín girnast mjög,
að hug til himna snúum.
Ó, góði faðir, gef þá náð,
að gjörðir, mál og allt vort ráð
þér hrós og heiður tjái.
Æ, ver þú hjálp og hjástoð vor,
að hver og einn í Jesú spor
um lífstíð fetað fái.
Ó, Guð, í tíma vek oss vel,
sem vitum ei, nær kemur hel
og dagur dómsins stranga.
Að hafna synd oss hjálpa þú,
í hreinum kærleik, von og trú
veit öllum oss að ganga.
Oss villukenning forða frá,
við fláttskap heims oss kenn að sjá,
að hann ei sálir svíki.
Í gleði’ og hryggð oss grandi ver,
og gef að síðar erfum vér
þitt heilagt himnaríki.
Zwick – Sb. 1589 – Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Drottinn, konungur dýrðarinnar, þú sem ert herra máttarvaldanna, og ert stiginn upp til himna, við biðjum þig. Skildu okkur ekki eftir óörugg og hjálparvana heldur send okkur styrk með anda sannleikans eins og þú hefur heitið. Amen.