2. sunnudagur eftir páska (Misericordias domini)
Litur: Hvítur.Vers vikunnar:
Jesús sagði: „Ég er góði hirðirinn. Mínir sauðir heyra raust mína og ég þekki þá og þeir fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf og þeir skulu aldrei að eilífu glatast.“ (Jóh 10.11a, 27-28a)
Kollekta:
Almáttugi Guð, sem fyrir lægingu sonar þína hefur reist upp hinn fallna heim: Veit öllum, sem á þig trúa, ævarandi gleði, svo að þeir, sem þú hefur hrifið úr háska eilífs dauða, njóti af náð þinni eilífs fagnaðar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Slm 23
Davíðssálmur.
Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.
Hann hressir sál mína,
leiðir mig um rétta vegu
fyrir sakir nafns síns.
Þótt ég fari um dimman dal
óttast ég ekkert illt
því að þú ert hjá mér,
sproti þinn og stafur hugga mig.
Þú býrð mér borð
frammi fyrir fjendum mínum,
þú smyrð höfuð mitt með olíu,
bikar minn er barmafullur.
Gæfa og náð fylgja mér
alla ævidaga mína
og í húsi Drottins
bý ég langa ævi.
Pistill: 1Pét 5.1-4
Öldungana ykkar á meðal hvet ég sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig á hlutdeild í þeirri dýrð sem mun opinberast: Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þegar hinn æðsti hirðir birtist munuð þið öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar.
Guðspjall: Jóh 21.15-19
Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“
Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“
Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“
Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“
Sálmur: 161
Hirðisraust þín, Herra blíði,
hljómi skært í eyrum mér,
svo ég gjarna heyri’ og hlýði
hennar kalli’ og fylgi þér,
þér, sem vegna þinna sauða
þitt gafst sjálfur líf í dauða,
þér, sem ert mín hjálp og hlíf,
huggun, von og eilíft líf.
Herra minn og hirðir góði,
hjarta mitt skal prísa þig,
því ég veit, að þú með blóði
þínu hefur frelsað mig.
Undir hirðishendi þinni
hólpið æ er sálu minni,
og þú glatar aldrei mér,
ef ég hlýðinn fylgi þér.
Sb. 1886 – Björn Halldórsson
Bæn dagsins:
Drottinn Jesús Kristur, þú ert góði hirðirinn sem leiðir okkur á þínum vegum og lætur okkur ekkert skorta. Þú yfirgefur okkur aldrei, þú ert hjá okkur allan æviveginn, frá vöggu til grafar, þegar við fæðumst og þegar við deyjum. Við biðjum þig. Halt þú utan um okkur, hjörðina þína, eins og góður hirðir, haltu áfram að leita að þeim týndu, og safna þú þeim saman sem villast frá og vernda þú þau sérstaklega sem eru ekki af þínu sauðahúsi eða er bara ekki kunnugt um það. Gakk í veg fyrir þau sem eins og blóðþyrstir úlfar ráðast á hjörðina, meiða og deyða, og snú þeim frá, og gef líf og lækningu hinu særða og mædda, þú sem lifir og ríkir að eilífu. Amen.