Kyndilmessa 2. febrúar
Kyndilmessa 2. febrúar
Litur hvítur eða rauður.
Vers. En þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli.
Gal. 4.4.
Bæn dagsins / kollektan
Guð, ljós heimsins. Símeon og Anna sáu son þinn og lofuðu hann sem frelsara heimsins.
Gef okkur náð til þess ásamt þeim að sjá hjálpina sem þú hefur fyrirbúið Ísrael og öllum
þjóðum fyrir Drottin Jesú Krist. Þér sé lof að eilífu. Amen
Lexía. Mal.3.1-4
Sjá, ég sendi sendiboða minn, hann á að ryðja mér braut. Drottinn, sem þið leitið, kemur
skyndilega til musteris síns og boðberi sáttmálans, sem þið þráið, hann kemur, segir Drottinn
hersveitanna. Hver getur afborið daginn þegar hann kemur, hver fær staðist þegar hann
birtist? Hann er eins og eldur í bræðsluofni, eins og lútur sem bleikir þvott. Hann sest til að
bræða silfrið og hreinsa það, hann hreinsar syni Leví, hann gerir þá sem hreint silfur og
skíragull. Þá munu þeir færa Drottni fórnargjafir á réttan hátt. Þá verða fórnir Júdamanna og
Jerúsalembúa þóknanlegar eins og forðum daga og á löngu liðnum árum.
Pistill Heb. 2.14-18
Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði þá varð hann sjálfur maður, til þess að hann með
dauða sínum gæti að engu gert þann sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, og
frelsað alla þá sem lifðu allan sinn aldur undir ánauðaroki af ótta við dauðann. Því að víst er
um það að ekki tekur hann að sér englana en hann tekur að sér niðja Abrahams. Því var það
að hann í öllum greinum átti að verða líkur systkinum[ sínum svo að hann yrði miskunnsamur
og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði og gæti friðþægt fyrir syndir lýðsins. Sjálfur hefur
hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim er verða fyrir
freistingu.
Guðspjallið Lk 2.22-24 (25-35)
En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse fóru þau með hann upp til
Jerúsalem til að færa hann Drottni, en svo er ritað í lögmáli Drottins: „Allt karlkyns, er fyrst
fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,“ og til að bera fram fórn, eins og segir í lögmáli
Drottins, „tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur“.
Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að
Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum og hafði hann vitrað honum að hann skyldi
ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Að leiðsögn andans kom hann í
helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju
lögmálsins tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:
Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara
eins og þú hefur heitið mér
því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,
sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,
ljós til opinberunar heiðingjum
og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.
Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann. En Símeon blessaði þau og sagði
við Maríu móður hans: „Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael. Hann
verður tákn sem menn munu rísa gegn. Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu
hugsanir margra hjartna verða augljósar.“
Sálmur Sb 57
1 Heiðra skulum vér Herrann Krist.
Heims í fallinna barna vist
flekklaus hann mærin fæddi' um nátt.
Fagnandi syngja englar dátt:
Sé Drottni dýrð!
2 Son Guðs eilífur, sjáum vér,
sannur Guð, vafinn reifum er.
Jatan er fyrsta hælið hans,
hans sem er athvarf syndugs manns.
Sé Drottni dýrð!
3 Móðurfaðmurinn felur hann
fela veröld sem öll ei kann.
Hann er nú orðinn ungur sveinn
öllum sem hlutum ræður einn.
Sé Drottni dýrð!
4 Ljósið eilífa lítum vér
ljóma' um gjörvallan heim sem ber.
Náttmyrkri ljósið lýsir í,
ljóssins vér gjörumst börn í því.
Sé Drottni dýrð!
5 Snauður kom hann í heiminn hér
hans að miskunnar nytum vér,
auðguðumst fyrir fátækt hans,
fögnuðum arfleifð himnaranns.
Sé Drottni dýrð!
6 Fyrir allt sem að oss hann gaf
óverðskulduðum kærleik af
honum sé þökk af hjarta skýrð,
honum sé eilíft lof og dýrð.
Sé Drottni dýrð!
T Um 1380 v. 1 – Martin Luther, 1524 v. 2–6 – Sb. 1589 – Stefán Thorarensen – Vb. 1861 –
Sb. 1871