7. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Við borð Drottins. Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Þess vegna eruð þið ekki framar gestir og útlendingar heldur eruð þið samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.“ (Ef 2.19)
Kollekta:
Eilífi Guð, þú sem aldrei bregst í ráðum forsjónar þinnar, vér biðjum þig: Tak frá oss allt, sem oss má að meini verða og gef oss það, sem farsælir oss til lífs og sálar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jóel 2.21-24
Óttast ekki, land,
heldur fagna og gleðst
því að Drottinn hefur unnið mikil stórvirki.
Óttist ekki, dýr merkurinnar.
Beitilönd öræfanna gróa,
trén bera ávöxt,
fíkjutrén og vínviðurinn veita þrótt sinn.
Gleðjist, Síonarbúar,
og fagnið í Drottni, Guði yðar.
Af réttlæti sínu hefur hann sent yður vorregnið
og eins og fyrrum mun hann gefa yður vorregn og haustregn.
Þreskivellir munu fyllast af korni
og kerin flóa yfir af vínlegi og olíu.
Pistill: Post 2.41-47
En þau sem veittu orði hans viðtöku tóku skírn og þann dag bættust við um þrjú þúsund sálir. Þau ræktu trúlega uppfræðslu postulanna og samfélagið, brotning brauðsins og bænirnar.
Ótta setti að hverjum manni en mörg undur og tákn gerðust fyrir hendur postulanna. Allir þeir sem trúðu héldu hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Menn seldu eigur sínar og muni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á. Daglega komu menn saman með einum huga í helgidóminum, brutu brauð í heimahúsum, neyttu fæðu saman í fögnuði og einlægni hjartans. Þeir lofuðu Guð og höfðu vinsældir af öllum. En Drottinn bætti daglega við í hópinn þeim er frelsast létu.
Guðspjall: Jóh 6.30-35
Þeir spurðu hann þá: „Hvaða tákn getur þú sýnt okkur svo að við trúum? Hvað afrekar þú? Feður okkar átu manna í eyðimörkinni eins og ritað er: Brauð af himni gaf hann þeim að eta.“
Jesús sagði við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni. Brauð Guðs er sá sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf.“
Þá sögðu þeir við hann: „Drottinn, gef okkur ætíð þetta brauð.“
Jesús sagði þeim: „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir.
Sálmur: 229
Lát ei, Síon, lofgjörð bresta,
leiðtogann og hirðinn besta,
Jesú, lýða lausnarann,
heiðra þú með hljómi snjöllum,
hugfest þó, að langt er öllum
manna lofstír meiri hann.
Þitt í dag sé þakkarefni
þjóðum náðarpantur gefni,
blessað lífsins brauðið það,
er hann knúður kærleik hreinum
klökkur býtti lærisveinum,
síðst er borði sat hann að.
Ástar hreinu skrúði skarta
skyldugt væri hverju hjarta
þessum degi dýrum á,
og með hásöng helgra ljóða
höfundinum, Kristi góða,
náðarmáltíð þakka þá.
Kristur veitist allur öllum
ævinlega, þá vér föllum
fram við blessað borðið hans.
Kristur eyðist ei né þrýtur,
alla blessun hver einn hlýtur,
þó að neyti þúsund manns.
Allir, sem til Guðs borðs ganga,
gæti’ að halda rannsókn stranga
högum sálar sinnar á.
Krists með trú og tárum leiti,
til þess sér til lífs þeir neyti
og hans friður faðmi þá.
Aquinas – Sb. 1886
Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Drottin dýrðarinnar, þú sem gefur okkur allt sem við þörfnumst til að lifa, og gefur okkur Jesú Krist, son þinn, hann sem er brauð lífsins. Opna hjörtu okkar og huga svo að við meðtökum hversu ríkulega gæsku þú sýnir öllum mönnum í Jesú Kristi, bróður okkar og Drottni. Amen.