4. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Vers vikunnar:
„Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Gal 6.2)
Kollekta:
Drottinn Guð, vér biðjum þig: Stýr þú rás heimsins til friðar, svo að kirkja þín
megi í rósemi og gleði þjóna þér. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með
þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 1Mós 50.15-21
Eftir andlát föður síns hugsuðu bræður Jósefs: „Vera má að Jósef beri illan hug til okkar og endurgjaldi okkur allt hið illa sem við höfum gert honum.“ Þess vegna sendu þeir Jósef eftirfarandi skilaboð: „Áður en faðir þinn dó bað hann okkur að segja við þig: Fyrirgefðu bræðrum þínum misgjörð þeirra og synd, það illa sem þeir gerðu þér. Þess vegna biðjum við þig að fyrirgefa þjónum þess Guðs, sem faðir þinn dýrkaði, þá synd sem við höfum drýgt.“ Við þessi orð þeirra brast Jósef í grát.
Þá komu bræður hans sjálfir og féllu fram fyrir honum og sögðu: „Við erum þrælar þínir.“ En Jósef sagði við þá: „Óttist ekki því að ekki kem ég í Guðs stað. Þið ætluðuð að gera mér illt en Guð sneri því til góðs. Hann vildi gera það sem nú er orðið og þannig varðveita líf margra manna. Verið því óhræddir, ég skal annast ykkur og börn ykkar.“ Síðan hughreysti hann þá og talaði vingjarnlega til þeirra.
Pistill: Róm 2.1-4
Því hefur þú, maður, sem dæmir, enga afsökun hver sem þú ert. Um leið og þú dæmir annan dæmir þú sjálfan þig því að þú, sem dæmir, fremur hið sama. Við vitum að Guð dæmir þá með réttu sem slíkt fremja. Hyggur þú, maður, sem dæmir þá er þvílíkt fremja og gerir sjálfur hið sama, að þú munir umflýja dóm Guðs? Eða forsmáir þú hans miklu gæsku, þolinmæði hans og biðlund og lætur þér ekki skiljast að gæska Guðs vill leiða þig til afturhvarfs?
Guðspjall: Jóh 8.2-11
Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.
Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum.
Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“
En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“
Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“
Sálmur: 196
Á þig, Jesú Krist, ég kalla,
kraft mér auka þig ég bið.
Hjálpa þú mér ævi alla,
að ég haldi tryggð þig við.
Líkna mér og lát mér falla
ljúft að stunda helgan sið.
Eg svo hlýði ætíð þínum
elskuboðum, Herra minn,
votti trú í verkum mínum,
vel að reki' eg feril þinn,
þinni raust með sannleik sínum
sífellt gegni varfærinn.
Fullkomnun, sem fyr'ir mig lagðir,
framt ástunda gef þú mér,
þá að elska, sem þú sagðir,
samt af alhug varast hér
neinn að fleka fölsku bragði,
fyrst að bræður erum vér.
Veit, að það, sem heimur heldur
heill, ei dragi mig frá þér.
Það, sem fyrir gott hann geldur,
gjarnan spott og vanþökk er,
en það sælu æðstu veldur,
ef vér, Drottinn, hlýðnumst þér.
Þá skal trú mín, þýði Herra,
þægan ávöxt bera sinn,
Drottins ætíð dýrðin vera,
dug og kraft er efldi minn,
fasta vörn skal fyrir bera,
freistar mín ef heimurinn.
Heyrir þú mitt hróp, ég treysti,
Herra, þér, og stenst ég þá.
Þótt mín syndir þráfalt freisti,
þú mér aldrei víkur frá,
en mér sendir sanna hreysti,
sigri frægum loks að ná.
Agricola - Sb. 1589 - Jón Espólín
Bæn dagsins:
Miskunnsami Guð, hvert ættum við að leita ef skilningur og fyrirgefning væru ekki til, heldur aðeins kuldi og harka og afskiptaleysi? Gefðu okkur hlutdeild í hjartagæsku þinni. Láttu okkur finna miskunnsemi, og lifa í henni og iðka hana, eins og þú sýndir okkur í Jesú Kristi. Amen.