Þrenningarhátíð (trinitatis) – Fyrsti sunnudagur eftir hvítasunnu
Litur: RauðurVers vikunnar:
„Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð.“ (Jes 6.3b)
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð, sem hefur gefið þjónum þínum að játa sanna trú og þekkja þannig dýrð eilífrar þrenningar og tilbiðja einingu hátignar þinnar: Vér biðjum þig að gera oss staðföst í þessari trú og varðveita oss gegn öllu böli. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 1Mós 18.1-5
Abraham sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum í Mamrelundi er Drottinn birtist honum. Honum varð litið upp og stóðu þá þrír menn frammi fyrir honum. Er hann sá þá hljóp hann til móts við þá úr tjalddyrunum, laut til jarðar og mælti:
„Herra minn, hafi ég fundið náð fyrir augum þínum þá gakk ekki fram hjá þjóni þínum. Mættum við sækja svolítið vatn að þið getið þvegið fætur ykkar og hvílst undir trénu? Ég ætla að ná í matarbita svo að þið getið styrkt ykkur áður en þið haldið lengra úr því að þið fóruð um hjá þjóni ykkar.“
Þeir svöruðu: „Gott og vel, gerðu eins og þú hefur sagt.“
Pistill: Tít 3.4-7
En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.
Guðspjall: Matt.11.25-27
Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Sálmur: 4
Dýrð í hæstum hæðum,
himna Guð, þér syngja
allir þínir englar og öll þín hólpin hjörð.
Jörð það endurómar,
allar klukkur hringja,
fagnandi hjörtu færa þakkargjörð.
Dýrð í hæstum hæðum.
Helgir leyndardómar
opnast fyrir augum
þess anda’, er ljós þitt sér.
Allt, sem anda dregur, elsku þína rómar,
tilveran gjörvöll teygar líf frá þér.
Dýrð í hæstum hæðum.
Hingað oss þú sendir
soninn þinn að sýkna hinn seka lýð á jörð.
Síðan hátt til himna
hann með krossi bendir,
sigur hann gefur sinni barnahjörð.
Dýrð í hæstum hæðum,
hljómar þér um aldir,
þyrnikrýndur, krossi píndur
kóngur lífs og hels.
Lýtur þér og lofar lýður, sem þú valdir,
lýsandi’ á jörð sem ljómi fagrahvels.
Dýrð í hæstum hæðum. Heilagri þrenning,
föður, syni’ og friðaranda,
færum lofgjörð vér,
göfgi þig með gleði
gjörvöll jarðarmenning,
Guð einn og þrennur, þökk þér einum ber.
Heber – Sb. 1945 – Friðrik Friðriksson
Bæn dagsins:
Heilaga þrenning, á þig trúum við, þig tignum við, þig játum við í leyndardómi hátignar þinnar. Styrk þú trúna hjá börnum þínum öllum, og varðveit okkur fyrir öllu því sem ógnar henni. Þér sé lof að eilífu, Faðir, Sonur og Heilagur Andi. Amen.