6. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„En nú segir Drottinn svo, sá sem skóp þig, Jakob, og myndaði þig, Ísrael: Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn.“ (Jes 43.1)
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð, sem gefur allt hið góða: Gróðurset í hjörtu vor kærleik til þíns heilaga nafns og veit oss vöxt í trúnni, svo að þú megir í oss efla allt gott og varðveita af föðurelsku þinni það sem þú lífgar og styrkir. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jes 42.5-7
Svo segir Drottinn Guð
sem skapaði himininn og þandi hann út,
sem breiddi út jörðina með öllu sem á henni vex,
sá er andardrátt gaf jarðarbúum
og lífsanda þeim sem á jörðinni ganga:
Ég, Drottinn, kallaði þig í réttlæti
og held í hönd þína.
Ég móta þig,
geri þig að sáttmála fyrir þjóðirnar
og að ljósi fyrir lýðina
til að opna hin blindu augu,
leiða fanga úr varðhaldi
og úr dýflissu þá sem í myrkri sitja.
Pistill: Gal 3.26-29
Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.
Guðspjall: Matt 5.17-19
Ætlið ekki að ég sé kominn til að afnema lögmálið eða spámennina. Ég kom ekki til að afnema heldur uppfylla. Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram. Hver sem því brýtur eitt af þessum minnstu boðum og kennir öðrum það mun kallast minnstur í himnaríki en sá sem heldur þau og kennir mun mikill kallast í himnaríki.
Sálmur: 255
Ég grundvöll á, sem get ég treyst,
því Guð minn lagt hann hefur
af elsku’ og náð, sem ei fær breyst
og óverðskuldað gefur.
Að boði hans ég borinn var
að bjartri laug og skírður þar
af orði hans og anda.
Á höfuð mitt og hjarta var
hans helgi kross þá ristur
sem augljóst tákn þess, að mig þar
til eignar tæki Kristur,
því keypt hann hefði’ á krossi mig
og knýtt með þeirri fórn við sig
og nú á ný mig fæddi.
Hve gott að eiga grundvöll þann,
þá guðlaus vantrú hræðir,
að sjálfur Drottinn verkið vann,
sem veikan endurfæðir.
Ég, allslaust barn, gat ekki neitt,
en eilíft líf af náð var veitt,
mitt nafn í lífsbók letrað.
Bjarni Eyjólfsson
Bæn dagsins:
Trúfasti Guð, þú sem í heilagri skírn gjörðir okkur að þínum börnum, og kallaðir okkur með nafni til að vera þín eign. Leyfðu okkur að ganga í gleði og trúfesti vegu lífsins, og að reyna að ekkert getur gjört okkur viðskila við kærleika þinn, sem þú gafst okkur í Jesú Kristi, þínum kæra syni og bróður okkar. Amen.