9. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.“ (Lúk 12.48b)
Kollekta:
Almáttugi Guð: Heyr í mildi bænir vorar, sem leitum ásjár þinnar og gef, að vér óskum þess eins, sem þér er þóknanlegt, svo að þú fáir veitt oss það, sem vér beiðumst. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Am 5.14-15
Leitið hins góða en ekki hins illa,
þá munuð þér lifa
og þá verður Drottinn, Guð hersveitanna, með yður
eins og þér hafið sagt.
Hatið hið illa og elskið hið góða,
eflið réttinn í borgarhliðinu.
Þá má vera að Drottinn, Guð hersveitanna, miskunni sig yfir þá
sem eftir eru af ætt Jósefs.
Pistill: 2Tím 4.5-8
En ver þú algáður í öllu, þol illt, ger verk fagnaðarboða, fullna þjónustu þína. Nú er svo komið að mér verður fórnfært og tíminn er kominn að ég taki mig upp. Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér heldur og öllum sem þráð hafa endurkomu hans.
Guðspjall: Lúk 12.42-48
Drottinn mælti: „Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma? Sæll er sá þjónn er húsbóndinn finnur breyta svo er hann kemur. Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar. En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: Það dregst að húsbóndi minn komi, og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður, þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi er hann væntir ekki, á þeirri stundu er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum.
Sá þjónn sem veit vilja húsbónda síns og hirðir ekki um að hlýða honum mun barinn mörg högg. En hinn sem veit ekki hvað húsbóndi hans vill en vinnur til refsingar mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.
Sálmur: 361
Starfa, því nóttin nálgast,
nota vel æviskeið,
ekki þú veist, nær endar
ævi þinnar leið.
Starfa, því aldrei aftur
ónotuð kemur stund,
ávaxta því með elju
ætíð vel þín pund.
Starfa, því nóttin nálgast,
notaðu dag hvern vel,
starfa með ugg og ótta,
arðinn Drottni fel.
Starfa, þú stendur eigi
styrkvana’ í heimi hér.
Vanti þig ekki viljann,
vís er hjálpin þér.
Starfa, því nóttin nálgast,
nóg hér að vinna er,
Guð þér af gnægtum sinnar
gæsku kraftinn lér.
Starfa með bæn og biðlund,
blessast þá allt þitt ráð,
víst mun þeim, vel er biður,
veitast allt af náð.
Starfa, því nóttin nálgast,
niðdimm, er hvílist hold
dauðans í dróma bundið
djúpt í kaldri mold.
Starfa í trú, þá styður
sterk þig og voldug hönd.
Herranum Jesú hæstum
helga líf og önd.
Walker – Sb. 1945 – Jón Helgason
Bæn dagsins:
Drottinn Guð, gjafari allra góðra hluta, við erum oft óróleg í þessum heimi þar sem gróði eða tap virðast skipta svo miklu máli og verðum hrædd um að tapa. Gefðu okkur kjark til að reikna með þér. Gefðu okkur hlutdeild í auðlegð réttlætis þíns, svo að við eignumst lífið fyrir Jesú Krist.