8. sunnudagur eftir þrenningarhátíð - Hólahátíð
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. – Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur.“ (Ef 5.8b-9)
Kollekta:
Drottinn Guð, vér biðjum þig: Gef oss af mildi þinni þann anda, að vér hugsum ávallt það sem er rétt og breytum eftir því, svo að vér, sem getum ekki án þín verið, megum lifa samkvæmt þínum vilja. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Jes 26.1-7
Á þeim degi verður þetta ljóð sungið í Júda:
Vér eigum rammgera borg,
múrar og virki voru reist henni til varnar.
Ljúkið upp hliðum
svo að réttlát þjóð, sem varðveitir trúnað,
megi inn ganga,
þjóð sem hefur stöðugt hugarfar.
Þú varðveitir heill hennar
því að hún treystir þér.
Treystið Drottni um aldur og ævi
því að Drottinn er eilíft bjarg.
Hann hefur lítillækkað þá sem bjuggu á hæðum,
steypt hinni háreistu borg,
steypt henni til jarðar
og varpað henni í duftið.
Hún var troðin fótum,
fótum fátækra,
tröðkuð iljum umkomulausra.
Bein er braut hins réttláta,
þú jafnar veg hans.
Pistill: 1Jóh 4.1-6
Þið elskuðu, trúið ekki öllum sem segjast hafa andann, reynið þá heldur og komist að því hvort andinn sé frá Guði. Því margir falsspámenn eru farnir út í heiminn. Af þessu getið þið þekkt anda Guðs: Sérhver andi, sem játar að Jesús sé Kristur kominn sem maður, er frá Guði. En sérhver andi sem ekki játar Jesú er ekki frá Guði. Hann er andkristsins andi sem þið hafið heyrt um að komi og nú þegar er hann í heiminum.
Börnin mín, þið eruð af Guði og hafið sigrað falsspámennina því að andinn sem er í ykkur er öflugri en andinn sem er í heiminum. Falsspámennirnir eru af heiminum. Þess vegna tala þeir eins og heimurinn talar og heimurinn hlýðir á þá. Við erum af Guði. Hver sem þekkir Guð hlýðir á okkur. Sá sem ekki er af Guði hlýðir ekki á okkur. Af þessu þekkjum við andann sem flytur sannleikann og andann sem fer með lygar.
Guðspjall: Matt 7.24-29
Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi.
En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“
Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.
Sálmur: 186
Ó, hve sæll er sá, er treysti
sínum Guði hverja tíð,
hann á bjargi hús sitt reisti,
hræðist ekki veðrin stríð.
Hann í allri segir sorg:
Sjálfur Drottinn mín er borg,
Náð og fullting hans mig hugga,
hans ég bý í verndar skugga.
Í það skjól vér flýjum, faðir,
fyrst oss þangað boðið er,
veginn áfram göngum glaðir,
glaðir, því vér treystum þér.
Ein er vonin allra best,
á þér sjálfum byggð og fest,
að þú sleppir engu sinni
af oss kærleikshendi þinni.
Sb. 1886 – Björn Halldórsson
Bæn dagsins:
Drottinn Guð, þú sem heldur öllu til haga með kærleika þínum og vísdómi, við komum til þín full trúnaðartrausts og biðjum þig: Haltu frá okkur öllu því sem skaðar okkur og spillir, og veit okkur það eitt sem þjónar til blessunar og hjálpar. Fyrir Drottin Jesú Krist, sem er bróðir okkar og frelsari, og lifir og ríkir með þér og heilögum Anda frá eilífð til eilífðar. Amen.