22. sunnudagur eftir trinitatis: Í skuld við Guð / Ótakmörkuð fyrirgefning
22. sunnudagur eftir trinitatis:
Í skuld við Guð / Ótakmörkuð fyrirgefning
Hjá þér er fyrirgefning svo að menn óttist þig. (Sálm. 130,4.)
Litur: Grænn.
Kollekta:
Drottinn Guð sem ert athvarf okkar og styrkur og einn gefur sanna trú: Heyr bænir kirkju þinnar og lát okkur fá að reyna, að þú veitir okkur það, sem við biðjum um. Fyrir Jesú Krist, Drottin vorn sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía Am 5. 6-12
Leitið Drottins og þér munuð lifa.
Annars mun hann þrengja sér inn í ætt Jakobs
eins og eyðandi eldur
og enginn slekkur hann í Betel.
Hann gerði sjöstjörnuna og Óríon
og breytir niðamyrkri í heiðan morgun
og degi í dimma nótt.
Hann kallar á hafið
og eys því á yfirborð jarðar,
Drottinn er nafn hans.
Hann sendir eyðingu gegn hinum sterka
og tortíming kemur yfir víggirta borg.
Vei þeim sem breyta réttinum í malurt
og steypa réttlætinu til jarðar.
Þeir hata þann sem fellir réttlátan dóm í borgarhliðinu
og forðast þann sem segir satt.
Af því að þér takið vexti af landleigu lítilmagnans
og leggið skatt á kornuppskeru hans
munuð þér reisa hús úr höggnu grjóti
en ekki búa í þeim sjálfir,
gróðursetja afbragðs víngarða
en ekki drekka vínið sjálfir.
Já, ég veit að glæpir yðar eru margir
og syndir yðar miklar.
Þér þröngvið þeim sem hefur á réttu að standa,
þiggið mútur og vísið hinum snauða frá réttinum.
Pistill: 1Kor 16.13-14
Vakið, standið stöðug í trúnni, verið hugdjörf og styrk. Auðsýnið kærleika í öllu sem þið gerið.
Guðspjall: Matt 18.15-20
Ef bróðir þinn syndgar gegn þér] skaltu fara og tala um fyrir honum og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast hefur þú endurheimt bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast skaltu taka með þér einn eða tvo að „hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna“. Ef hann skeytir þeim ekki þá seg það söfnuðinum. Skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.
Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu mun bundið á himni og hvað sem þér leysið á jörðu mun leyst á himni.
Enn segi ég yður: Ef tveir yðar verða einhuga hér á jörð í bæn sinni mun faðir minn á himnum veita þeim allt sem þeir biðja um. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“