Annar í páskum
Litur: Hvítur.Vers vikunnar:
„Ég dó en nú lifi ég um aldir alda og ég hef lykla dauðans og heljar.“ (Opb.1.18b)
Kollekta:
Almáttugi Guð, sem á helgri páskahátíð hefur gefið heiminum heilsu og líf, vér biðjum þig: Lát þína himnesku gjöf bera ávöxt hjá oss, sem þú hefur kallað til þíns eilífa frelsis og lífs. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Job 19.25-27
Ég veit að lausnari minn lifir
og hann mun síðastur ganga fram á foldu.
Eftir að þessi húð mín er sundurtætt
og allt hold er af mér mun ég líta Guð.
Ég mun líta hann mér til góðs,
augu mín munu sjá hann og engan annan.
Hjartað brennur af þrá í brjósti mér.
Pistill: Post 10.34-41
Þá tók Pétur til máls og sagði: „Sannlega skil ég nú að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er. Þið þekkið orðið sem hann sendi börnum Ísraels þegar hann flutti fagnaðarerindið um frið fyrir Jesú Krist sem er Drottinn allra. Þið vitið hvað gerst hefur um alla Júdeu en hófst í Galíleu eftir skírnina sem Jóhannes prédikaði. Það er sagan um Jesú frá Nasaret, hvernig Guð smurði hann heilögum anda og krafti. Hann gekk um, gerði gott og græddi alla sem djöfullinn undirokaði því að Guð var með honum. Við erum vottar alls þess er hann gerði, bæði í landi Gyðinga og í Jerúsalem. Og hann tóku þeir af lífi með því að hengja hann upp á tré. En Guð uppvakti hann á þriðja degi og lét hann birtast, ekki öllum almenningi heldur okkur, vottunum sem Guð hafði áður valið. Við átum og drukkum með honum eftir að hann var risinn upp frá dauðum.
Guðspjall: Lúk 24.13-35
Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus. Þeir ræddu sín á milli um allt þetta sem gerst hafði. Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim. Augu þeirra voru svo blinduð að þeir þekktu hann ekki. Og hann sagði við þá: „Hvað er það sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?“
Þeir námu staðar, daprir í bragði, og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: „Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem sem veit ekki hvað þar hefur gerst þessa dagana.“
Hann spurði: „Hvað þá?“
Þeir svöruðu: „Þetta um Jesú frá Nasaret sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum mönnum. Æðstu prestar og höfðingjar okkar létu dæma hann til dauða og krossfesta hann. Við vonuðum að hann væri sá er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við. Þá hafa og konur nokkrar úr okkar hópi gert okkur forviða. Þær fóru árla til grafarinnar en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust jafnvel hafa séð engla í sýn er sögðu hann lifa. Nokkrir þeirra sem með okkur voru fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt en hann sáu þeir ekki.“
Þá sagði hann við þá: „Skilningslausu menn, svo tregir til að trúa því öllu sem spámennirnir hafa sagt fyrir um! Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?“ Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum.
Þeir nálguðust nú þorpið sem þeir ætluðu til en hann lét sem hann vildi halda lengra. Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: „Vertu hjá okkur því að kvölda tekur og degi hallar.“ Og hann fór inn til að vera hjá þeim. Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim. Þá opnuðust augu þeirra og þeir þekktu hann en hann hvarf þeim sjónum. Og þeir sögðu hvor við annan: „Brann ekki hjartað í okkur meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“
Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þau er með þeim voru saman komin, en þau sögðu: „Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni.“
Hinir sögðu þá frá því sem við hafði borið á veginum og hvernig þeir höfðu þekkt hann þegar hann braut brauðið.
Sálmur: 147
Sigurhátíð sæl og blíð
ljómar nú og gleði gefur,
Guðs son dauðann sigrað hefur,
nú er blessuð náðartíð.
Nú er fagur dýrðardagur,
Drottins hljómar sigurhrós,
nú vor blómgast náðarhagur,
nú sér trúin eilíft ljós.
Ljósið eilíft lýsir nú
dauðans nótt og dimmar grafir.
Drottins miklu náðargjafir,
sál mín, auðmjúk þakka þú.
Fagna, Guð þér frelsi gefur
fyrir Drottin Jesú Krist
og af náð þér heitið hefur
himnaríkis dýrðarvist.
Drottinn Jesús, líf og ljós
oss þín blessuð elska veitir,
öllu stríði loks þú breytir
sæluríkt í sigurhrós.
Mæðu’ og neyð þín miskunn sefi,
með oss stríði kraftur þinn.
Sigur þinn oss sigur gefi,
sigurhetjan, Jesús minn.
Sb. 1871 – Páll Jónsson
Bæn dagsins:
Guð, þú ert grundvöllurinn og styrkurinn, Hjá þér getum við hrasað og dottið, og þú grípur okkur. Uggur og ótti, ógn og kvíði halda okkur oft í greipum sér. Þau beygja okkur og slá okkur með blindu og málhelti, eins og við værum líflaus og önduð. Hjá þér, Guð, breytist allt, þú lífgar hið dauða, þú gefur nýtt líf, þú, Guð, sem ert grundvöllur og styrkur, og gefur líf í miðjum dauða. Í brauði og víni við borð þitt, er Jesús Kristur, lífgjöf þín. Amen.