Þriðjudagur í kyrruviku
Á þriðjudegi í kyrruviku er lesin píslarsagan samvæmt Markúsi. (Mrk (14.17 – 72) 15.1-41)Textaröð: A
Pistill: Job 38.1-11, 42.1-6
Þá svaraði Drottinn Job úr storminum og sagði:
Hver er sá sem hylur ráðsályktunina myrkri
með innihaldslausum orðavaðli?
Gyrtu lendar þínar eins og manni sæmir,
nú ætla ég að spyrja þig en þú skalt svara.
Hvar varstu þegar ég grundvallaði jörðina?
Segðu það ef þú veist það og skilur.
Hver ákvað umfang hennar, veist þú það,
eða hver þandi mælivað yfir henni?
Á hvað var sökklum hennar sökkt
eða hver lagði hornstein hennar
þegar morgunstjörnurnar sungu saman gleðisöng
og allir synir Guðs fögnuðu?
Hver byrgði hafið inni með hliðum
þegar það braust fram úr móðurlífi
og ég fékk því klæðnað úr skýjum
og reifaði það svartaþoku,
þegar ég ruddi því markaða braut,
setti slagbranda fyrir og hlið
og sagði: „Hingað kemstu og ekki lengra,
hér stöðvast hreyknar hrannir þínar.“
Job svaraði Drottni og sagði:
Nú skil ég að þú getur allt,
ekkert, sem þú vilt, er þér um megn.
Hver myrkvar ráðsályktunina án þekkingar?
Ég hef talað af skilningsleysi
um undursamleg kraftaverk.
Hlustaðu, nú ætla ég að tala,
ég ætla að spyrja, þú skalt svara.
Ég þekkti þig af afspurn
en nú hefur auga mitt litið þig.
Þess vegna tek ég orð mín aftur
og iðrast í dufti og ösku.
Guðspjall: Mrk 15.1-20
Þegar að morgni gerðu æðstu prestarnir samþykkt með öldungunum, fræðimönnunum og öllu ráðinu. Þeir létu binda Jesú og færa brott og framseldu hann Pílatusi. Pílatus spurði hann: „Ert þú konungur Gyðinga?“
Jesús svaraði: „Það eru þín orð.“
En æðstu prestarnir báru á hann margar sakir. Pílatus spurði hann aftur: „Svarar þú engu? Þú heyrir hve þungar sakir þeir bera á þig.“
En Jesús svaraði engu framar og undraðist Pílatus það.
En á hátíðinni var Pílatus vanur að gefa þeim lausan einn bandingja, þann er þeir báðu um. Maður að nafni Barabbas var þá í böndum ásamt upphlaupsmönnum. Höfðu þeir framið manndráp í upphlaupinu. Nú kom mannfjöldinn og tók að biðja að Pílatus veitti þeim hið sama og hann væri vanur. Pílatus svaraði þeim: „Viljið þið að ég gefi ykkur lausan konung Gyðinga?“ Hann vissi að æðstu prestarnir höfðu fyrir öfundar sakir framselt hann. En æðstu prestarnir æstu múginn til að heimta að hann gæfi þeim heldur Barabbas lausan. Pílatus tók enn til máls og sagði við þá: „Hvað á ég þá að gera við þann sem þið kallið konung Gyðinga?“
En þeir æptu á móti: „Krossfestu hann!“
Pílatus spurði: „Hvað illt hefur hann þá gert?“
En þeir æptu því meir: „Krossfestu hann!“
En með því að Pílatus vildi gera fólkinu til hæfis gaf hann því Barabbas lausan. Hann lét húðstrýkja Jesú og framseldi hann til krossfestingar.
Hermennirnir fóru með Jesú inn í höllina, aðsetur landshöfðingjans, og kölluðu saman alla hersveitina. Þeir færa hann í purpuraskikkju, flétta þyrnikórónu og setja á höfuð honum. Þá tóku þeir að heilsa honum: „Heill þér, konungur Gyðinga!“ Og þeir slógu höfuð hans með reyrsprota og hræktu á hann, féllu á kné og hylltu hann. Þegar þeir höfðu spottað hann færðu þeir hann úr purpuraskikkjunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir Jesú út til að krossfesta hann.
Sálmur: 143
Ég kveiki á kertum mínum
við krossins helga tré.
Í öllum sálmum sínum
hinn seki beygir kné.
Ég villtist oft af vegi.
Ég vakti oft og bað.
Nú hallar helgum degi
á Hausaskeljastað.
Í gegnum móðu’ og mistur
ég mikil undur sé.
Ég sé þig koma, Kristur,
með krossins þunga tré.
Af enni daggir drjúpa,
og dýrð úr augum skín.
Á klettinn vil ég krjúpa
og kyssa sporin þín.
Þín braut er þyrnum þakin,
hver þyrnir falskur koss.
Ég sé þig negldan nakinn
sem níðing upp á kross.
Ég sé þig hæddan hanga
á Hausaskeljastað. -
Þann lausnardaginn langa
var líf þitt fullkomnað.
Að kofa og konungshöllum
þú kemur einn á ferð.
Þú grætur yfir öllum
og allra syndir berð.
Þú veist, er veikir kalla
á vin að leiða sig.
Þú sérð og elskar alla,
þó allir svíki þig.
Ég fell að fótum þínum
og faðma lífsins tré.
Með innri augum mínum
ég undur mikil sé.
Þú stýrir vorsins veldi
og verndar hverja rós.
Frá þínum ástareldi
fá allir heimar ljós.
Sb. 1945 – Davíð Stefánsson frá Fagraskógi
Bæn dagsins:
Miskunnsami, eilífi Guð. Þú gafst son þinn í dauða á krossi fyrir okkur öll. Gef að við megum meðtaka þann boðskap af öllu hjarta og bregðast aldrei í nokkurri freistni heldur standast fyrir kraft trúarinnar. Þess biðjum við í nafni Jesú Krist, bróður okkar og Drottins. Amen.