Sunnudagur í föstuinngang (Estomihi)
Vers vikunnar:
„Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn.“ (Lúk 18.31)
Kollekta:
Vér biðjum þig, Drottinn: Heyr þú í mildi bænir vorar. Leys oss úr viðjum syndanna og varðveit oss gegn öllu illu. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Jes 50.4-11
Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu
svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum.
Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt
svo að ég hlusti eins og lærisveinn.
Drottinn Guð opnaði eyra mitt
og ég streittist ekki á móti,
færðist ekki undan.
Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig
og vanga mína þeim sem reyttu skegg mitt,
huldi ekki andlit mitt fyrir háðung og hrákum.
En Drottinn Guð hjálpar mér,
þess vegna verð ég ekki niðurlægður.
Því gerði ég andlit mitt hart sem tinnu
og veit að ég verð ekki til skammar.
Nærri er sá er sýknar mig,
hver getur deilt við mig?
Við skulum báðir ganga fram.
Hver ákærir mig?
Komi hann til mín.
Drottinn, Guð minn, hjálpar mér,
hver getur sakfellt mig?
Sjá, þeir detta allir sundur eins og klæði,
mölur étur þá upp.
Hver er sá yðar á meðal sem óttast Drottin
og hlýðir á boðskap þjóns hans?
Sá sem gengur í myrkri
og enga skímu sér,
hann treysti á nafn Drottins
og reiði sig á Guð sinn.
En þér, sem kveikið eld
og vopnist logandi örvum,
gangið sjálfir inn í eigið bál
og eldinn sem þér kveiktuð með örvunum.
Úr minni hendi kemur þetta yfir yður,
þér munuð liggja í kvölum.
Pistill: 1Kor 1.18-25
Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. Ritað er:
Ég mun eyða speki spekinganna
og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera.
Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?
Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa. Gyðingar heimta tákn og Grikkir leita að speki en við prédikum Krist krossfestan, Gyðingum hneyksli og heiðingjum heimsku en okkur sem Guð hefur kallað, bæði Gyðingum og Grikkjum, Krist, kraft Guðs og speki Guðs. Því að heimska Guðs er mönnum vitrari og veikleiki Guðs mönnum sterkari.
Guðspjall: Lúk 18.31-34
Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“
En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.
Sálmur: 251
Andi Guðs sveif áður fyrr
yfir vatna djúpi.
Upp þá lukust ljóssins dyr,
létti af myrkrahjúpi.
Upp reis jörðin ung og ný,
árdagsgeislum böðuð í,
þá úr dimmu djúpi.
Andi Guðs sveif annað sinn
yfir vatni köldu,
þegar lét sig lausnarinn
lauga í Jórdans öldu.
Opnast himinn, eins og nýtt
upp rann náðar ljósið blítt
dauða’ úr djúpi köldu.
Andinn svífur enn sem fyrr
yfir vatni tæru,
opnast himins dýrðardyr
Drottins börnum kæru.
Eftir skírnar blessað bað
blómið upp vex nýdöggvað
lífs í ljósi skæru.
Sb. 1886 – Valdimar Briem
Bæn dagsins:
Miskunnsami Guð, þú sýndir öllum heimi kærleika þinn og gjörðist hluttakandi í þjáningu heimsins þegar sonur þinn Drottinn Jesús Kristur gaf sjálfan sig til dauða á krossi Við biðjum þig: Opna þú augu okkar að við sjáum leyndardóminn bak við þjáningu hans og dauða. Gef okkur kraft til að fylgja honum í hlýðni og í kærleika í þjónustunni við þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti og eftir lausn frá böli og þunga í sínu daglega lífi. Fyrir þann sama Son þinn Jesús, bróður okkar og frelsara. Amen.