3. sunnudagur eftir þrettánda
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Þá munu menn koma frá austri og vestri, frá norðri og suðri og sitja til borðs í Guðs ríki.“ (Lúk 13.29)
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð: Lít í líkn á veikleika vorn og réttu þína voldugu hönd til verndar oss. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: 5Mós 10.17-21
Því að Drottinn, Guð ykkar, er Guð guðanna og Drottinn drottnanna. Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði. Þið skuluð því sjálfir elska aðkomumanninn því að þið voruð sjálfir aðkomumenn í Egyptalandi.
Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn. Þú skalt þjóna honum, vera honum trúr og sverja við nafn hans. Hann er þinn lofsöngur og hann er þinn Guð sem hefur unnið fyrir þig öll þessi miklu og ógnvekjandi verk sem þú hefur séð með eigin augum.
Pistill: Róm 12.16-21
Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu, látið reiði Guðs um að refsa eins og ritað er: „Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,“ segir Drottinn. En „ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka. Með því að gera þetta safnar þú glóðum elds á höfuð honum.“ Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.
Guðspjall: Matt 8.1-13
Nú gekk Jesús niður af fjallinu og fylgdi honum mikill mannfjöldi. Þá kom til hans líkþrár maður, laut honum og sagði: „Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig.“
Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: „Ég vil, verð þú hreinn!“ Jafnskjótt varð hann hreinn af líkþránni. Jesús sagði við hann: „Gæt þess að segja þetta engum en far þú, sýn þig prestinum og færðu þá fórn sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar.“
Þegar Jesús kom til Kapernaúm gekk til hans hundraðshöfðingi og bað hann: „Drottinn, sveinn minn liggur heima lami, mjög þungt haldinn.“
Jesús sagði: „Ég kem og lækna hann.“
Þá sagði hundraðshöfðinginn: „Drottinn, ég er ekki verður þess að þú gangir inn undir þak mitt. Mæl þú aðeins eitt orð og mun sveinn minn heill verða. Því að sjálfur er ég maður sem verð að lúta valdi og ræð yfir hermönnum og ég segi við einn: Far þú, og hann fer, og við annan: Kom þú, og hann kemur, og við þjón minn: Ger þetta, og hann gerir það.“
Þegar Jesús heyrði þetta undraðist hann og mælti við þau sem fylgdu honum: „Sannlega segi ég ykkur, þvílíka trú hef ég ekki fundið hjá neinum í Ísrael. En ég segi ykkur: Margir munu koma frá austri og vestri og sitja til borðs með Abraham, Ísak og Jakob í himnaríki en börn ríkisins munu út rekin í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“ Þá sagði Jesús við hundraðshöfðingjann: „Far þú, verði þér sem þú trúir.“
Og sveinninn varð heill á þeirri stundu.
Sálmur: 207
Sú, trú, sem fjöllin flytur,
oss fári þyngstu ver,
ei skaða skeyti bitur,
þann skjöld ef berum vér,
í stormum lífs hún styður
og styrkir hjörtun þreytt,
í henni’ er fólginn friður,
sem fær ei heimur veitt.
Minn Jesús, lát ei linna
í lífi trú mér hjá,
svo faldi fata þinna
ég fái þreifað á
og kraftinn megi kanna,
sem kemur æ frá þér
til græðslu meinum manna
og mesta blessunb lér.
Í trú mig styrk að stríða
og standast eins og ber,
í trú mig láttu líða,
svo líki, Drottinn, þér.
Er dauðans broddur bitur
mér beiskri veldur þrá,
þá trú, er fjöllin flytur,
mig friða láttu þá.
Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Guð, þú sem bjargar, þú gefur og skapar þú viðheldur og fullkomnar, með heilögu orði þínu. Tala þú orð þitt einnig inn í okkar neyð og ótta, svo að við vinnum bug á þeim með þinni aðstoð og þökkum þér hjálp þína fyrir Jesú Krists. Amen.