1. sunnudagur eftir þrettánda – Guðssonurinn
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn.“ (Róm 8.14)
Kollekta:
Vér biðjum þig, Drottinn: Heyr þú í himneskri mildi þinni bænir vorar, svo að vér sjáum, hvað oss ber að gera og gefist styrkur til að framkvæma það. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Jes 52.13-15
Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða,
hann mun verða mikill og veglegur og hátt upp hafinn.
Eins og marga hryllti við honum,
svo afskræmdur var hann ásýndum
að vart var á honum mannsmynd,
eins mun hann vekja undrun margra þjóða
og konungar munu verða orðlausir frammi fyrir honum
því að þeir munu sjá það sem enginn hefur sagt þeim
og verða þess áskynja sem þeir hafa aldrei heyrt.
Pistill: 1Pét 3.18-22
Kristur dó[ fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, á dögum Nóa, þegar Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur. Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.
Guðspjall: Matt 3.13-17
Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“
Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.
En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“
Sálmur: 250
Til mín skal börnin bera,
svo býður lausnarinn,
þeim athvarf vil ég vera
og veita kærleik minn.
Ég fæddist fátækt í
sem barn, að börn þess njóti
og blessun alla hljóti
af ástarundri því.
Vor Jesús börnin blíður
að brjósti leggur sér
og þeim hið besta býður,
það borgarréttur er
með himins helgri þjóð,
hann erfð þeim æðsta veitir
og allri sælu heitir
sitt fyrir blessað blóð.
Til Krists því koma látið,
þér kristnir, börnin smá,
og hæsta heill það játið,
að hans þau fundi ná.
Ó, berið börn til hans,
hann virðist við þeim taka,
þau voði má ei saka
í faðmi frelsarans.
Becker – Sb. 1886 – Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Guð ljóssins, við þökkum þér fyrir komu Jesú Krists í heiminn, hann sem er ljós heimsins takmark þess sem leitar, og vegvísir hins villta. Við þökkum þér að við megum koma til hans með börnin okkar og okkur sjálf, og þiggja blessun hans í heilagri skírn, hlýða á hann og fylgja honum að eilífu Amen.