3. sunnudagur í föstu (Oculi)
Á þriðjudögum á föstu er lesið úr Jobsbók að morgni, en píslarsagan samkvæmt Markúsi að kveldi.Vers vikunnar:
„En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í Guðs ríki.““ (Lúk 9.62)
Kollekta:
Vér biðjum þig, almáttugi Guð: Heyr bænir vorar, barna þinna, og lát þína voldugu verndarhönd hlífa oss og hjálpa. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Sak 12.10
En Davíðs ætt og Jerúsalembúa læt ég fyllast anda samúðar og tilbeiðslu og þeir munu líta til mín vegna hans sem þeir lögðu í gegn og harma hann jafnsárlega og menn harma lát einkasonar og syrgja hann jafnbeisklega og menn syrgja frumgetinn son.
Pistill: Ef 5.1-9
Verðið því eftirbreytendur Guðs svo sem elskuð börn hans. Lifið í kærleika eins og Kristur elskaði okkur og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir okkur svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.
En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal ykkar. Slíkt hæfir ekki heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þakkið miklu fremur Guði. Því að það skuluð þið vita og festa ykkur í minni að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn – sem er sama og að dýrka hjáguði – á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.
Látið engan tæla ykkur með marklausum orðum því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða honum ekki. Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra. Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni. Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. – Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. -
Guðspjall: Lúk 11.14-28
Jesús var að reka út illan anda og var sá mállaus. Þegar illi andinn var farinn út tók málleysinginn að mæla og undraðist mannfjöldinn. En sumir þeirra sögðu: „Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana.“ En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.
En Jesús vissi hugrenningar þeirra og sagði: „Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús. Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist – fyrst þér segið að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls? En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar. En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.
Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann tekur sá alvæpni hans er hann treysti á og skiptir herfanginu.
Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.
Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.“
Er Jesús mælti þetta hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir.“
Jesús svaraði: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“
Sálmur: Sb. 1886
Minn Jesús, kunnugt það er þér,
hve þrátt sá óvin ræðst að mér,
er vill í glötun svíkja sál,
frá sannleiks orðum beygja mál,
frá verki réttu hefta hönd
og hneppa líf í synda bönd.
Lát hann ei geta hindrað mig,
ó, herra, frá að lofa þig,
lát aldrei því fá hamlað hann,
að heyrt ég geti sannleikann,
lát hann ei blekkja sálarsjón
og svik hans önd ei búa tjón.
Ef fellir hann mig, fljótt mig reis,
ef fjötrar hann mig, brátt mig leys,
ef villir hann mig, blítt mér bend,
ef blindar hann mig, ljós mér send,
ef skelfir hann mig, legg mér lið,
ef lokkar hann mig, þú mig styð.
Ó, lækna, Jesús, líf mitt allt,
ó lát það vermast, sem er kalt,
það vökva fá, sem visna fer,
það verða hreint, sem flekkað er,
það auðgast, sem er aumt og snautt,
það endurlifna, sem er dautt.
Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Guð, uppspretta ljóssins. Þú opnar augu okkar svo að við getum séð í gegn um hið óútskýrða og þorum að trúa þrátt fyrir allt óöryggið. Hjálpa þú okkur að taka eftir ljósinu sem lýsir okkur í Jesú Kristi og hrekur hverkyns nótt á brott. Því að hann er ljósið okkar að eilífu.