Sunnudagur milli jóla og nýárs - Símeon og Anna Guðs börn Fjölskylda Guðs
Litur: Hvítur.
Vers vikunnar:
Hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans. Jóh 1.14a
Kollekta:
Almáttugi, eilífi Guð: Bein þú athöfnum okkar að því sem þér er þóknanlegt, svo að við verðum auðug að góðum verkum. Fyrir son þinn Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Eða
Eilífi Guð. Í Jesú Kristi getur heimurinn séð hjálpræði sitt. Leið okkur eftir vilja þínum svo að við lofum gæsku þína og gerum það sem gott er í nafni sonar þíns sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir frá eilífð til eilífðar
Lexía: Jes. 63.7-9, 15-16
Ég vil minnast velgjörða Drottins,
syngja Drottni lof fyrir allt
sem hann gerði fyrir oss,
hina miklu gæsku Drottins við Ísraels ætt
sem hann sýndi henni af miskunn sinni
og miklum kærleika.
Því að hann sagði:
„Þeir eru þjóð mín,
börn sem ekki bregðast,“
og hann varð þeim frelsari
í öllum þrengingum þeirra.
Það var hvorki sendiboði né engill
heldur hann sjálfur sem frelsaði þá.
Í kærleika sínum og miskunn endurleysti hann þá,
hann tók þá upp
og bar þá alla daga hinna fyrri tíða.
Líttu niður frá himni og horfðu
frá þínum heilaga og dýrlega bústað.
Hvar er ákafi þinn og afl,
meðaumkun hjarta þíns og miskunn?
Vertu mér ekki fjarri
því að þú ert faðir vor.
Abraham þekkir oss ekki
og Ísrael kannast ekki við oss.
Þú, Drottinn, ert faðir vor.
Frelsari vor frá alda öðli er nafn þitt.
Pistill: Gal 4.1-7
Með öðrum orðum: Alla þá stund sem erfinginn er ófullveðja er enginn munur á honum og þræli þótt hann eigi allt. Hann er undir fjárhaldsmönnum og ráðsmönnum til þess tíma er faðirinn hefur ákveðið. Þannig vorum við einnig, er við vorum ófullveðja, í ánauð heimsvættanna. En þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli – til þess að hann keypti lausa þá sem voru undir lögmáli og við yrðum börn Guðs. En þar eð þið eruð börn, þá hefur Guð sent anda sonar síns í hjörtu okkar sem hrópar: „Abba, faðir!“ Þú ert þá ekki framar þræll heldur barn. En ef þú ert barn, þá hefur Guð líka gert þig erfingja.
Guðspjall: Lúk 2.33-40
Faðir hans og móðir undruðust það er sagt var um hann. En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: „Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael. Hann verður tákn sem menn munu rísa gegn.
Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.“
Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hún hafði lifað sjö ár með manni sínum þegar hann dó og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögurra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi. Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla sem væntu lausnar Jerúsalem.
Og er þau höfðu lokið öllu, sem lögmál Drottins bauð, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret. En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.
Sálmur 665
1 Nú héðan á burt í friði' eg fer,
ó, faðir, að vilja þínum,
í hug er mér rótt og hjartað er
af harminum læknað sínum.
Sem hést þú mér, Drottinn, hægan blund
ég hlýt nú í dauða mínum.
2 Því veldur hinn sæli sonur þinn
er sála mín heitast þráði,
þú sýndir mér hann, ó, Herra minn,
af hjarta þíns líknarráði,
í lífi og deyð mig huggar hann,
þá huggun ég besta þáði.
3 Þú hefur hann auglýst öllum lýð
af ástríkri föðurmildi
til þess honum lúti veröld víð
og verða hans erfð hún skyldi,
að ljósið hans orða lýsi blítt
um löndin öll náð þín vildi.
4 Hann öllum er heimi ljós og líf
og leiðtoginn villtra besti,
í nauðunum örugg hann er hlíf
þótt hjálpina manna bresti,
hann, Ísrael, þínum eignarlýð
er yndið og heiður mesti.
Martin Luther– Helgi Hálfdánarson