2. sunnudagur í aðventu - Frelsarinn nálgast. Guðs ríki er nærri.
Litur: Fjólublár.
Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.
Vers vikunnar:
„Lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ (Lúk 21.28)
Bæn dagsins:
Drottinn Jesús Kristur, í heiminum er ótti og þjáning. Við þráum réttlæti og frið. Kom þú skjótt, endurnýja sköpun þína, svo að að óp örvæntingarinnar og stunur hræðslunnar megi breytast í lofsöng. Um það biðjum við og á þig vonum við um tíma og eilífð. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Bar 5.1-9
Afklæð þig, Jerúsalem, hryggðar- og hörmungarskikkju þinni,
íklæðstu skarti Guðs dýrðar að eilífu.
Sveipa þig möttli réttlætis Guðs,
set höfuðbúnað dýrðar Hins eilífa á höfuð þér.
Guð mun sýna sérhverri þjóð á jörðu vegsemd þína
því að Guð mun veita þér að eilífu nafnið:
„Friður vegna réttlætis, dýrð sakir guðrækni.“
Rís upp, Jerúsalem, tak þér stöðu á hæðinni,
hef upp augu þín og horfðu í austur.
Lít börn þín sem safnað var saman að boði Hins heilaga,
þau koma úr vestri og austri,
fagnandi yfir að Guð minntist þeirra.
Fótgangandi fóru þau frá þér,
leidd burt af óvinum.
En Guð færir þau aftur til þín
og munu þau borin í vegsemd líkt og í hásæti.
Því að Guð hefur boðið að hvert hátt fjall skuli lækka,
eilífar hæðir jafnast
og dalirnir fyllast og verða að jafnsléttu
svo að Ísrael megi ganga fram í skjóli dýrðar Guðs.
Að boði Guðs munu skógar og öll ilmandi tré
veita Ísrael skugga.
Með ljósi dýrðar sinnar
og með miskunn sinni og réttlæti
mun Guð leiða Ísrael fagnandi heim.
Pistill: Jak. 5.7-11
Þreyið því, systkin, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn! Hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn. Verið þið einnig þolinmóð, styrkið hjörtu ykkar því að Drottinn er í nánd. Kvartið ekki hvert yfir öðru, systkin, svo að þið verðið ekki dæmd. Dómarinn stendur fyrir dyrum. Bræður og systur, takið spámennina til fyrirmyndar sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði. Því við teljum þá sæla sem þolgóðir hafa verið. Þið hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið hvaða lyktir Drottinn gerði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.
Guðspjall: Matt 24.4-14
Jesús svaraði þeim: „Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: Ég er Kristur! og marga munu þeir leiða í villu. Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess að skelfast ekki. Þetta á að verða en endirinn er ekki þar með kominn. Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.
Þá munu menn framselja yður, pína og taka af lífi og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns. Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata. Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. Og vegna þess að lögleysi magnast mun kærleikur flestra kólna. En sá sem staðfastur er allt til enda verður hólpinn. Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.
Sálmur: 804
Þótt dauf sé dagsins skíma
og dimma okkur hjá,
við bíðum bjartra tíma
því bráðum kemur sá
sem ljós af ljósi gefur,
nú lífið sigrað hefur!
Við lofum hann Guðs son
sem gefur trú og von.
Við fögnum því við fáum
að halda heilög jól.
Hann kom frá himni háum
og hann er lífsins sól.
Herskarar engla´ og manna
nú syngja Hósíanna!
Við lofum soninn þann
sem boðar kærleikann.
Örn Arnarson