Jóladagur - Fæðing Jesú – Orðið varð hold
Litur: Hvítur eða gylltur.
Vers vikunnar:
„Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans,“ (Jóh 1.14)
Bæn dagsins:
Guð, sem ert ljós í myrkri. Þetta er dagurinn sem þú hefur gjört. Dagur hinnar miklu gleði. Þú kemur á móti okkur þegar við þreifum okkur áfram í myrkrinu og leiðir okkur til Jesú Krists sem er fagnaðarboði þessa heims og ljós huggunarinnar fyrir augum okkar að eilífu. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Jes 62.10-12
Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum.“
Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
og þú kölluð Hin eftirsótta,
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.
Pistill: Tít 3.4-7
En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.
Guðspjall: Jóh 1.1-14
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.
Sálmur: 93
Í upphafi var orðið fyrst,
það orð var Guði hjá.
Það játum vér um Jesú Krist,
:,: er jörðu fæddist á. :,:
Hann var það lífsins ljósið bjart,
er lýsir upp hvern mann,
en svo var manna myrkrið svart,
:,: að meðtók það ei hann. :,:
Hann kom til sinna, kom með frið,
hann kom með líkn og náð,
en þeir ei kannast vildu við
:,: síns vinar líknarráð. :,:
En hver, sem tekur honum við
og hýsir Drottin sinn,
fær náð og sigur, sæmd og frið
:,: og síðast himininn. :,:
Já, Guðs son kom í heiminn hér
og hann varð mönnum jafn,
að Guðs börn aftur verðum vér
:,: og vegsömum hans nafn. :,:
Valdimar Briem