Annar jóladagur - Sonur Davíðs
Litur: Hvítur eða gylltur.
Vers vikunnar:
„Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans,“ (Jóh 1.14)
Bæn dagsins:
Drottinn Jesús Kristur þú ert hið sanna ljós sem lýsir öllum þjóðum. Lát birtu þess einnig ljóma inn í hjörtu okkar og huga, svo að í okkur verði ljós af þínu ljósi sem lýsir upp myrkur heimsins. Því að þú lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda að eilífu. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Jes 9.1-6
Sú þjóð, sem í myrkri gengur,
sér mikið ljós.
Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna
skín ljós.
Þú eykur stórum fögnuðinn,
gerir gleðina mikla.
Menn gleðjast fyrir augliti þínu
eins og þegar uppskeru er fagnað,
eins og menn fagna þegar herfangi er skipt.
Því að ok þeirra,
klafann á herðum þeirra,
barefli þess sem kúgar þá
hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans.
Öll harkmikil hermannastígvél
og allar blóðstokknar skikkjur
skulu brenndar
og verða eldsmatur.
Því að barn er oss fætt,
sonur er oss gefinn.
Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,
hann skal nefndur:
Undraráðgjafi, Guðhetja,
Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.
Mikill skal höfðingjadómurinn verða
og friðurinn engan enda taka
á hásæti Davíðs
og í ríki hans.
Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti,
héðan í frá og að eilífu.
Vandlæting Drottins allsherjar
mun þessu til vegar koma.
Pistill: Tít 2.11-14
Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir okkur að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu okkar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir okkur til þess að hann leysti okkur frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.
Guðspjall: Matt 1.18-25
Fæðing Jesú Krists varð á þennan hátt: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman reyndist hún þunguð af heilögum anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni, vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: „Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans.“
Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða: „Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss.
Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.
Sálmur: 806
Ó, Jesúbarnið bjarta,
þú brosir jörðu við,
þótt hún ei hýsa vilji
þitt hjartalag og frið.
En þú vilt fórn þá færa
sem frelsar heiminn þinn
og það er þökk míns hjarta
að þú ert Drottinn minn.
Frá hæstum ljóssins himni
þú hingað kominn ert,
þín elska endurskapar
það allt sem þú fær snert.
Og yfir haf og hauður
þín heilög birta skín
og læknar allt og lífgar
sem laðast vill til þín.
Þú ert það ljósið eina
sem allur myrkvi flýr,
í lind þíns helga hjarta
öll heilsa lífsins býr.
Þín vonarstjarna vísar
til vegar hverjum þeim
sem þreytir þunga göngu
og þráir ljóssins heim.
Sigurbjörn Einarsson