Gamlárskvöld – við aftansöng – 31. desember - Tími fyrir Guð
Litur: Hvítur.
Vers vikunnar:
Í þinni hendi eru dagar mínir. Sálm. 31.16a
Bæn dagsins
Almáttugi eilífi Guð, við þökkum þér að þú hefur varðveitt okkur í náð þinni til þessarar stundar. Við biðjum þig: Leið og leiðbein okkur einnig á hinu komandi ári í miskunn þinni og mildi og lát blessun þína hvíla yfir okkur, fyrir Jesú Krist frelsara okkar og Drottin sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir. Einn sannur Guð um aldir alda. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Slm 90.1b-4, 12
Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.
Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.
Pistill: Heb 13.5b-7
Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ Því getum við örugg sagt:
Drottinn er minn hjálpari,
eigi mun ég óttast.
Hvað geta mennirnir gert mér?
Minnist leiðtoga ykkar sem Guðs orð hafa til ykkar talað. Virðið fyrir ykkur hvernig ævi þeirra lauk og líkið eftir trú þeirra.
Guðspjall: Lúk 12.35-40
Verið vel tygjaðir og látið ljós yðar loga og verið líkir þjónum er bíða þess að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra. Sælir eru þeir þjónar sem húsbóndinn finnur vakandi er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun búa sig, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim. Og komi hann um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá. Það skiljið þér að húsráðandi léti ekki brjótast inn í hús sitt ef hann vissi á hvaða stundu þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúnir því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“
Sálmur 102
Sem stormur hreki skörðótt ský,
svo skunda burt vor ár.
Og árin koma, ný og ný,
með nýja gleði og tár.
Því stopult, hverfult er það allt,
sem oss er léð, svo tæpt og valt,
jafnt hraust og veikt, og fé og fjör,
það flýgur burt sem ör.
En eitt var það, sem stöðugt stóð
og stendur alla tíð,
það virki, er styrka höndin hlóð,
þín hjálpin, Drottinn, blíð.
Hún feðra og mæðra verndin var
á vegum stríðs og þjáningar
og kveikti ljós við kulnað skar
og kyndil vonar bar.
Við ljósið það skal lagt af stað
til lands, er bíður vor.
Það lýsa mun, sem lýsti það
á löngu horfin spor.
Kom, nýja ár, með storm og stríð,
með stillur, frið og sólskin blíð.
- Þó stormar hreki skörðótt ský,
í skjóli Guðs ég bý.
Sigurjón Guðjónsson