Sunnudagur milli nýárs og þrettánda - Í vernd Guðs / Guðs hús
Litur: Hvítur.
Vers vikunnar:
,,Hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“ (Jóh 1.14b)
Bæn dagsins:
Guð, um aldir hefur ljósið þitt ljómað af ásjónu nýfædds barns í Betlehem sem tákn elsku þinnar og návistar mitt í ógn og illsku heimsins. Við biðjum þig: Láttu ljósið þitt lýsa okkur enn. Leið okkur frá dauða til lífs, frá lygi til sannleika, frá vanmætti til vonar, frá ótta til trausts, frá hatri til kærleika, frá stríði til friðar. Hjálpa okkur að tendra ljós fremur en að formæla myrkrinu og lát frið þinn fylla hjörtu okkar, allra manna, alheims. Í Jesú nafni. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: 1Kon 8.20-24
Drottinn hefur efnt það loforð sem hann gaf. Ég er kominn í stað Davíðs, föður míns, og er sestur í hásæti Ísraels eins og Drottinn hét. Nú hef ég reist nafni Drottins, Guðs Ísraels, hús og búið örkinni þar stað. Í henni er sáttmálinn sem Drottinn gerði við feður okkar þegar hann leiddi þá út úr Egyptalandi.“
Þessu næst gekk Salómon fyrir altari Drottins andspænis öllum söfnuði Ísraels, lauk upp lófum til himins og bað: „Drottinn, Guð Ísraels, enginn guð er sem þú, hvorki á himni né á jörðu. Þú heldur sáttmálann og sýnir þeim þjónum þínum trúfesti sem breyta af heilum hug frammi fyrir augliti þínu. Þú hefur staðið við það sem þú lofaðir þjóni þínum, Davíð föður mínum. Það sem þú lofaðir með munni þínum hefur þú efnt í dag með hendi þinni.
Pistill: Ef 1.3-14
Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem í Kristi hefur blessað oss með allri andlegri blessun himinsins. Áður en grunnur heimsins var lagður útvaldi hann oss í Kristi að hann hefði oss fyrir augum sér heilög og lýtalaus í kærleika.
Fyrir fram ákvað hann að gera oss að börnum sínum í Jesú Kristi.
Sá var náðarvilji hans.
Hann vildi að vér yrðum til vegsemdar dýrð hans og náð
sem hann hefur gefið oss í sínum elskaða syni.
Í honum, fyrir hans blóð, eigum vér endurlausnina
og fyrirgefningu afbrota vorra.
Svo auðug er náð hans sem hann gaf oss ríkulega
með hvers konar vísdómi og skilningi.
Og hann hefur birt oss leyndardóm vilja síns,
þann ásetning um Krist sem hann í náð sinni ætlaði sér að framkvæma í fyllingu tímanna:
Að safna öllu sem til er á himni og jörðu undir eitt höfuð í Kristi.
Í honum höfum vér þá líka öðlast arfleifðina
eins og oss var fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans
er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns
til þess að vér, sem áður höfum sett von vora til Krists,
skyldum vera dýrð hans til vegsemdar.
Í honum eruð og þér eftir að hafa heyrt orð sannleikans,
fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann
og verið merkt innsigli heilags anda sem yður var fyrirheitið.
Hann er pantur arfleifðar vorrar
að vér verðum endurleyst Guði til eignar,
dýrð hans til vegsemdar.
Guðspjall: Matt 22.41-46
Þegar farísearnir voru saman komnir spurði Jesús þá: „Hvað virðist ykkur um Krist? Hvers son er hann?“
Þeir svara: „Davíðs.“
Hann segir: „Hvernig getur þá Davíð, innblásinn andanum, kallað hann drottin? Hann segir:
Drottinn sagði við minn drottin:
Set þig mér til hægri handar
þangað til ég geri óvini þína að fótskör þinni.
Fyrst Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?“
Enginn gat svarað Jesú einu orði og frá þeim degi þorði enginn að spyrja hann neins framar.
Sálmur 809
Kristur, Guðs sonur sanni,
signaður Drottinn hár,
af hjarta Guðs föður fæddur
fyrir öll tímans ár,
sú morgunstjarnan mæta
skal meinin heimsins bæta
og græða sérhvert sár.
Fátækust mær hann fæddi
fjárhúsi dimmu í,
en engla augun sáu
undrið í húsi því:
Kærleikans sólin sanna,
sáluhjálp allra manna,
brosti þar björt og hlý.
Einnig vor augun blindu
opna þú, Drottinn, nú,
kveiktu í köldum barmi
kærleika, von og trú,
láttu þitt orð oss lýsa
og leiðina til þín vísa
þá sól er sendir þú.
Lát orðið elsku þinnar
sinn ávöxt færa þér
í breytni þinna barna.
Þeim björg og styrkur ver.
Í hverri hríð og vanda,
það heilagt orð skal standa,
að náð þín eilíf er.
Elizabeth Cruciger 1524 - Sigurbjörn Einarsson