Boðunardagur Maríu er 25. mars, en er oft haldinn hátíðlegur 5. sunnudag í föstu (iudica).
Litur: Litur: Hvítur.
Dýrðarsöngur/lofgjörð eru sungin.
Vers vikunnar:
„En þegar fylling tímans kom sendi Guð son sinn, fæddan af konu, fæddan undir lögmáli -“ (Gal 4.4)
Bæn dagsins:
Eilífi Guð, þú sem forðum sendir engil þinn til Maríu til að boða henni að fyrir hana skyldi þitt eilífa Orð taka á sig mannlegt hold til þess að við mættum frelsast. Gef þú okkur eins og Maríu að mega taka á móti náð þinni og kærleika í auðmýkt og í trausti til þín svo að veröldin öll megi þekkja þig og frelsara sinn, Drottin Jesú Krist. Við biðjum í hans nafni. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Jes 7.10-14
Drottinn talaði aftur við Akas og sagði: „Bið þú Drottin, Guð þinn, um tákn, hvort heldur neðst neðan úr undirheimum eða ofan frá hæstu hæðum.“ Akas svaraði: „Ég bið einskis því að ég vil ekki freista Drottins.“ Þá sagði Jesaja: „Hlýðið nú á, niðjar Davíðs. Finnst yður ekki nóg að reyna á þolinmæði manna? Ætlið þér einnig að reyna á þolinmæði Guðs míns? Þess vegna mun Drottinn sjálfur gefa yður tákn. Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel.
Pistill: Kól 1.15-20
Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs,
frumburður allrar sköpunar.
Enda var allt skapað í honum
í himnunum og á jörðinni,
hið sýnilega og hið ósýnilega,
hásæti og herradómar, tignir og völd.
Allt er skapað fyrir hann og til hans.
Hann er fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum.
Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar,
hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu.
Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu.
Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa
og láta hann koma öllu í sátt við sig,
öllu bæði á jörðu og himnum,
með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.
Guðspjall: Lúk 1.39-45
En á þeim dögum tók María sig upp og fór með flýti til borgar nokkurrar í fjallbyggðum Júda. Hún kom inn í hús Sakaría og heilsaði Elísabetu. Þá varð það, þegar Elísabet heyrði kveðju Maríu, að barnið tók viðbragð í lífi hennar og Elísabet fylltist heilögum anda og hrópaði hárri röddu: „Blessuð sért þú meðal Nýr pistillkvenna og blessaður ávöxtur lífs þíns. Hvaðan kemur mér þetta, að móðir Drottins míns kemur til mín? Þegar kveðja þín hljómaði í eyrum mér tók barnið viðbragð af gleði í lífi mínu. Sæl er sú sem trúði því að rætast mundi það sem Drottinn lét segja henni.“
Sálmur 838
Alls staðar finn ég þig,
yndisleg návist þín
umvefur mig sem ljúfur sunnanvindur.
Jörðin gengur sinn veg
gegnum myrkur, geimryk og glóandi sindur.
Hún snýr sér dansandi í hring
en dýrð þín er, Drottinn,
uppi´ yfir mér og allt um kring.
Vilborg Dagbjartsdóttir