Sunnudagur í föstuinngang (Estomihi) - Krossferillinn / Vegur kærleikans
Litur: Grænn
Vers vikunnar:
,,Sjá vér förum upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við mannssoninn , sem skrifað er hjá spamönnunum.” (Lúk 18.31)
Bæn dagsins:
Miskunnsami Guð, þú sýndir öllum heimi kærleika þinn og gjörðist hluttakandi í þjáningu heimsins þegar sonur þinn Drottinn Jesús Kristur gaf sjálfan sig til dauða á krossi. Við biðjum þig: Opna þú augu okkar að við sjáum leyndardóminn bak við þjáningu hans og dauða. Gef okkur kraft til að fylgja honum í hlýðni og í kærleika í þjónustunni við þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti og eftir lausn frá böli og þunga í sínu daglega lífi. Fyrir þann sama Son þinn Jesús, bróður okkar og frelsara. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Jes 57.13-15
Lát skurðgoðaflokk þinn bjarga þér
þegar þú hrópar á hjálp.
Stormurinn ber hann burt,
vindurinn tekur hann
en sá sem leitar hælis hjá mér
mun erfa landið
og taka mitt heilaga fjall til eignar.
Einhver segir:
Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,
ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.
Því að svo segir hinn hái og upphafni
sem ríkir ævinlega og ber nafnið Heilagur:
Ég bý á háum og helgum stað
en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda
til að glæða þrótt hinna lítillátu
og styrkja hjarta þjakaðra.
Pistill: Heb 12.7-13
Þolið aga. Guð fer með ykkur eins og börn sín. Öll börn búa við aga. Ef Guð agar ykkur ekki þá eruð þið ekki börn hans heldur þrælborin. Við bjuggum við aga jarðneskra foreldra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við þá ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar og lifa? Foreldrar okkar öguðu okkur um fáa daga eftir því sem þeim leist en okkur til gagns agar Guð okkur svo að við verðum heilög eins og hann. Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf.
Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám.Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.
Guðspjall: Jóh 12.23-36
Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra.
Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“
Þá kom rödd af himni: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“
Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: „Engill var að tala við hann.“
Jesús svaraði: „Þessi rödd kom ekki mín vegna heldur yðar vegna. Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ Þetta sagði hann til að gefa til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja.
Mannfjöldinn svaraði honum: „Lögmálið segir okkur að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?“ Þá sagði Jesús: „Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið meðan þér hafið ljósið svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer. Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“Þetta mælti Jesús, fór burt og duldist.
Sálmur 813
Til Jerúsalem vor liggur leið
með lausnara heimsins blíða
að sjá hann, konunginn Krist, Guðs son,
þar krýndan með þyrnum líða.
Til Jerúsalem vor liggur leið.
Hvern langar með Drottni að vaka?
Hver fylgja vill honum sem háð og smán
og hegningu líður án saka?
Til Jerúsalem vor liggur leið
til lausnarans bitru nauða,
til lambsins helga sem leið og dó
og leysti oss alla frá dauða.
Til Jerúsalem vor liggur leið
sem ljómar í birtu skærri
því þar vor Drottinn og ástvin er
og oss vill hann hafa sér nærri.
Lúk 18.31-34 - P. Nilsson - Sigurbjörn Einarsson