Skírdagur
Litur: Fjólublár.
Vers vikunnar:
Hann hefur látið minnast dásemdarverka sinna,
náðugur og miskunnsamur er Drottinn (Slm 111.4)
Bæn dagsins:
Jesús Kristur, brauð lífsins. Í brauði og víni gefur þú okkur hlutdeild í guðlegum leyndardómi lífs þíns, yfirbugar aðskilnaðinn sem synd okkar veldur og tekur okkur með þína leið, veg fórnar og þjáningar til eilífs lífs svo að við séum hjá þér eins og þú ert hjá okkur að eilífu. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: 2Mós 24.1-11
Guð sagði við Móse: „Gakk upp til Drottins, þú sjálfur, Aron, Nadab, Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels. Þið skuluð falla fram álengdar. Móse einn skal nálgast Drottin en hinir skulu ekki nálgast hann og fólkið má ekki fara upp með honum.“
Móse kom og skýrði fólkinu frá öllum orðum Drottins og öllum réttarreglunum. Allt fólkið svaraði einum rómi og sagði: „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið.“ Því næst skráði Móse öll boð Drottins.
Morguninn eftir var hann snemma á fótum og reisti altari við fjallsræturnar og tólf merkisteina fyrir tólf ættbálka Ísraels. Síðan lét hann unga Ísraelsmenn ganga fram og þeir færðu Drottni brennifórnir og slátruðu nautum í heillafórn. Móse tók helming blóðsins og hellti því í skálar en helmingi blóðsins stökkti hann á altarið. Því næst tók hann sáttmálsbókina og las hana fyrir fólkið sem sagði: „Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið og hlýða honum.“ Þá tók Móse blóðið, stökkti því á fólkið og sagði: „Þetta er blóð sáttmálans sem Drottinn gerir hér með við ykkur og byggður er á öllum þessum fyrirmælum.“
Þá gengu þeir Móse og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels upp á fjallið og þeir sáu Guð Ísraels. Undir fótum hans var eitthvað sem líktist safírhellum, tært eins og himinninn sjálfur. Hann rétti ekki út hönd sína gegn höfðingjum Ísraels og þeir horfðu á Drottin og átu og drukku.
Pistill: Heb 2.10-18
Guð hefur skapað allt og allt er til vegna hans. Hann vildi leiða mörg börn til dýrðar. Því varð hann að fullkomna með þjáningum þann Jesú er skyldi leiða þau til hjálpræðis. Því að sá sem helgar og þau sem helguð verða eru öll frá einum komin. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þau systkin er hann segir:
Ég mun gera nafn mitt kunnugt systkinum mínum,
ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.
Og aftur:
Ég mun treysta á hann.
Og enn fremur:
Hér er ég og börnin er Guð gaf mér.
Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði þá varð hann sjálfur maður, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gert þann sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn, og frelsað alla þá sem lifðu allan sinn aldur undir ánauðaroki af ótta við dauðann. Því að víst er um það að ekki tekur hann að sér englana en hann tekur að sér niðja Abrahams. Því var það að hann í öllum greinum átti að verða líkur systkinum[ sínum svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði og gæti friðþægt fyrir syndir lýðsins. Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim er verða fyrir freistingu.
Guðspjall: Matt 26.17-30
Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna komu lærisveinarnir til Jesú og sögðu: „Hvar vilt þú að við búum þér páskamáltíðina?“
Hann mælti: „Farið til ákveðins manns í borginni og segið við hann: Meistarinn segir: Minn tími er í nánd, hjá þér vil ég halda páska með lærisveinum mínum.“
Lærisveinarnir gerðu sem Jesús bauð þeim og bjuggu til páskamáltíðar. Um kvöldið sat Jesús til borðs með þeim tólf. Og er þeir mötuðust sagði hann: „Sannlega segi ég ykkur: Einn af ykkur mun svíkja mig.“
Þeir urðu mjög hryggir og sögðu við hann, einn af öðrum: „Er það ég, Drottinn?“
Hann svaraði þeim: „Sá sem dýfði brauðinu í fatið með mér mun svíkja mig.Mannssonurinn fer að sönnu héðan svo sem um hann er ritað en vei þeim manni sem því veldur að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst.“
En Júdas, sem sveik hann, sagði: „Rabbí, er það ég?“
Jesús svaraði: „Það eru þín orð.“
Þá er þeir mötuðust tók Jesús brauð, gerði þakkir, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: „Takið og etið, þetta er líkami minn.“
Og hann tók kaleik, gerði þakkir, gaf þeim og sagði: „Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda. Ég segi ykkur: Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags er ég drekk hann nýjan með ykkur í ríki föður míns.“
Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn fóru þeir til Olíufjallsins.
Sálmur 886
Úr erli dagsins inn ég geng.
Þá opnast faðmur þinn.
Ó, slá þú, hjartans hörpustreng
og hugga anda minn!
Ég heyri, Jesús, heilagt orð,
svo hlekkir falla af mér
og nýt þess við þitt nægtaborð
að náðin gefins er.
Í brauði og víni birtist þú.
Þinn bikar fullur er.
Veit huga mínum hreina trú
sem himin Drottins sér.
Lát hverfa heimsins hryggð og synd
svo hjartað öðlist frið;
í trú sem öll er óljós mynd
Guðs eilífð blasir við.
Gjör, Kristur, hjartað heilt í trú
er handa sér ei skil.
Í kápu úr skýjum kemur þú
og kallar dómsins til.
Hjörtur Pálsson