1. sunnudagur páskatímans (Quasimodogeniti)
Litur: Hvítur.
Vers vikunnar:
„Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum.“ (1Pét 1.3)
Bæn dagsins:
Drottinn Jesús Kristur, þegar við mætum þér lýkst upp fyrir okkur, að jafnvel hlið heljar eru ekki lokuð lengur, því að þú opnaðir dauðraríkið þegar þú reist upp frá dauðum og settir líf í stað dauða. Og við sem vorum þreytt og uppgefin, orðlaus og vonlaus eins og mörg þeirra sem fylgdu þér forðum, fengum nýjan kraft. Við réttum úr okkur og horfðum glöð fram á veginn, þegar þú snertir okkur með kærleika þínum og með anda þínum, og við fundum hið nýja líf sem vex og dafnar og sáum og heyrðum að vonin breiðist út, því að þú ert sá sem hjálpar og frelsar, alltaf og allsstaðar. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Slm 145.1-7
Lofsöngur Davíðs.
Ég tigna þig, Guð minn og konungur,
og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
Ég vegsama þig hvern dag
og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur,
veldi hans er órannsakanlegt.
Kynslóð eftir kynslóð vegsamar verk þín,
segir frá máttarverkum þínum
og dýrlegum ljóma hátignar þinnar:
„Ég vil syngja um dásemdir þínar.“
Þær tala um mátt ógnarverka þinna:
„Ég vil segja frá stórvirkjum þínum.“
Þær víðfrægja mikla gæsku þína
og fagna yfir réttlæti þínu.
Pistill: Post 4.32-35
En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál og enginn þeirra taldi neitt vera sitt er hann átti heldur höfðu menn allt sameiginlegt. Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti og mikil náð var yfir þeim öllum. Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.
Guðspjall: Mrk 16.9-14
Þegar Jesús var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar birtist hann fyrst Maríu Magdalenu en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda. Hún fór og kunngjörði þetta þeim er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu.
Þá er þeir heyrðu að Jesús væri lifandi og hún hefði séð hann trúðu þeir ekki.
Eftir þetta birtist Jesús í annarri mynd tveimur þeirra þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit. Þeir sneru við og kunngjörðu hinum en þeir trúðu þeim ekki heldur. Seinna birtist Jesús þeim ellefu þegar þeir sátu til borðs og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og þverúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim er sáu hann upp risinn.
Sálmur 578
Lof sé þér, Guð, því lífsins sól,
ljómar frá gröf, sem nóttin fól,
krýnir þíns sonar konungs stól.
Hallelúja, hallelúja, hallelúja.
Hann vann það stríð, sem stærst var háð,
sterkur og hreinn í ást og náð
svipti hann dauðann sinni bráð.
Hallelúja, hallelúja, hallelúja.
Upprisni Drottinn, dýrð sé þér,
dögun þíns ríkis fögnum vér,
lifandi von oss vakin er.
Hallelúja, hallelúja, hallelúja.
Vér sem þig játum, viljum nú
vakna til lífs, sem gefur þú,
helga oss þér í hjartans trú.
Hallelúja, hallelúja, hallelúja.
Eilífum rómi öll þín hjörð,
englar á himni, menn á jörð,
syngur lof þér og þakkargjörð.
Hallelúja, hallelúja, hallelúja.
Sigurbjörn Einarsson