3. sunnudagur páskatímans (Iubilate)
Litur: Hvítur
Vers vikunnar:
„Ef einhver er í Kristi er hann orðinn nýr maður, hið liðna varð að engu, nýtt er orðið til.“ (2Kor 5.17)
Bæn dagsins:
Drottinn Guð skapari alls sem er. Eins og þú vekur náttúruna alla til nýs lífs á hverju vori og endurnýjar ásjónu jarðar, þannig viltu einnig endurnýja okkur og gjöra nýja jörð og nýjan himinn þar sem réttlætið ríkir. Lífga okkur, börn þín, og vek okkur af svefndrunganum, gef okkur kraft og kjark trúarinnar, svo að við þorum að trúa, og rísum upp til nýs lífs með þér, fyrir Drottin Jesú Krist, bróður okkar og frelsara. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Sak 8.16-18
Þetta er það sem ykkur ber að gera:
Segið sannleikann hver við annan
og fellið dóma af sanngirni
og velvilja í hliðum yðar.
Enginn yðar ætli öðrum illt í hjarta sínu
og fellið yður ekki við meinsæri.
Allt slíkt hata ég,
segir Drottinn.
Pistill: Róm 8.9-11
En þið eruð ekki á hennar valdi heldur andans sem í ykkur býr. En sá sem hefur ekki anda Krists er ekki hans. Ef Kristur er í ykkur er líkaminn að sönnu dauður því að syndin er dauð en andinn er líf sakir sýknunar Guðs. Ef andi hans sem vakti Jesú frá dauðum býr í ykkur þá mun hann sem vakti Krist frá dauðum einnig lífga dauðlega líkami ykkar með anda sínum sem í ykkur býr.
Guðspjall: Jóh 15.1-8
„Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér sem ber ekki ávöxt sníður hann af og hverja þá sem ávöxt ber hreinsar hann svo að hún beri meiri ávöxt. Þér eruð þegar hrein vegna orðsins sem ég hef talað til yðar. Verið í mér, þá verð ég í yður. Greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér nema hún sé á vínviðnum. Eins getið þér ekki heldur borið ávöxt nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert. Hverjum sem er ekki í mér verður varpað út eins og greinunum og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt. Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið og yður mun veitast það. Með því vegsamast faðir minn að þér berið mikinn ávöxt og verðið lærisveinar mínir.
Sálmur 713
Kom þú, ó, Kristur,
kom þú í helgum anda,
kom, í brauði við borð þitt.
Sjá eins og kornið,
vaxið um víða akra
verður að einu brauði,
kallar þú saman,
Kristur, til starfa,
kirkjuna þína.
Lof sé þér, Drottinn.
Vínviðargreinar
vér erum börn þín, Drottinn,
vaxin af sama stofni.
Í einum kaleik,
uppskeru þinna þrúgna
safnar þú, Kristur, saman,
því að þú ert stofninn
þar sem vér vöxum;
þiggjum líf þitt
í bikar og brauði.
Kristján Valur Ingólfsson