5. sunnudagur páskatímans (Rogate) – Hinn almenni bænadagur
Litur: Hvítur
Vers vikunnar:
„Lofaður sé Guð er hvorki vísaði bæn minni á bug né tók frá mér miskunn sína.“ (Slm 66.20)
Bæn dagsins:
Miskunnsami Guð, þú hefur heitið okkur því að gefa okkur það sem við biðjum þig um í nafni sonar þíns. Kenn okkur að biðja þannig að við væntum allrar hjálpar frá þér. Fyrir Jesú Krist þinn elskaða son, frelsara okkar og Drottin, sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir frá eilífð til eilífðar.
Þriðja lestraröð
Lexía: Slm 102.12-29
Dagar mínir eru sem síðdegisskuggi
og ég visna sem gras.
En þú, Drottinn, ríkir að eilífu
og þín er minnst frá kyni til kyns.
Þú munt rísa upp, sýna Síon miskunn
því að nú er tími til kominn að líkna henni,
já, stundin er runnin upp.
Því að þjónar þínir elska steina Síonar
og harma yfir rústum hennar.
Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins
og allir konungar jarðarinnar dýrð þína
því að Drottinn byggir upp Síon
og birtist í dýrð sinni.
Hann gefur gaum að bæn hinna allslausu
og hafnar ekki bæn þeirra.
Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð
og þjóð, sem enn er ekki sköpuð, skal lofa Drottin.
Drottinn lítur niður frá sinni heilögu hæð,
horfir frá himni til jarðar
til að heyra andvörp bandingja
og leysa börn dauðans,
til að kunngjöra nafn Drottins á Síon
og lofa hann í Jerúsalem
þegar þjóðir safnast þar saman
og konungsríki til að þjóna Drottni.
Hann bugaði kraft minn á miðri ævi,
fækkaði ævidögum mínum.
Ég segi: „Guð minn, sviptu mér ekki burt á miðri ævi
því að ár þín vara frá kyni til kyns.“
Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina
og himinninn er verk handa þinna;
þau munu líða undir lok en þú varir,
þau munu fyrnast sem fat,
þú leggur þau frá þér sem klæði og þau hverfa
en þú ert hinn sami og ár þín fá engan enda.
Börn þjóna þinna munu búa óhult
og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.
Pistill: 1Jóh 5.13-15
Þetta hef ég skrifað ykkur sem trúið á nafn Guðs sonar til þess að þið vitið að þið eigið eilíft líf. Og þetta er traustið sem við berum til hans: Ef við biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann okkur. Og ef við vitum að hann bænheyrir okkur um hvað sem við biðjum, þá vitum við að við höfum þegar öðlast það sem við báðum hann um.
Guðspjall: Jóh 14.12-14
Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig mun einnig gera þau verk sem ég geri. Og hann mun gera meiri verk en þau því ég fer til föðurins. Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni það mun ég gera svo að faðirinn vegsamist í syninum. Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni mun ég gera það.
Sálmur 914
Hróp mitt er þögult,
þú heyrir það samt,
þögnin hún ómar
í þér, í þér,
ómar eins og vatnið,
streymandi vatnið.
Þrá mín er þögul,
þú heyrir hana samt,
þráin hún ómar
í þér, í þér,
ómar eins og vatnið,
svalandi vatnið.
Bæn mín er þögul,
þú heyrir hana samt,
bænin hún ómar
í þér, í þér,
ómar eins og vatnið,
lifandi vatnið.
Sigurður Pálsson