Annar páskadagur
Litur: Hvítur eða gylltur
Vers vikunnar:
„Ég dó en nú lifi ég um aldir alda og ég hef lykla dauðans og heljar.“ (Opb 1.18b)
Bæn dagsins:
Guð, þú ert grundvöllurinn og styrkurinn. Hjá þér getum við hrasað og fallið og þú grípur okkur. Uggur og ótti, ógn og kvíði halda okkur oft í greipum sér. Þau beygja okkur og slá með blindu og málhelti, eins og við værum líflaus og önduð. Hjá þér, Guð, breytist allt, þú lífgar hið dauða, þú gefur nýtt líf, þú, Guð, sem ert grundvöllur og styrkur, gefur líf í miðjum dauða. Í brauði og víni við borð þitt, er Jesús Kristur, lífgjöf þín. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Slm 73.23-26
En ég er ætíð hjá þér,
þú heldur í hægri hönd mína,
þú leiðir mig eftir ályktun þinni
og síðan munt þú taka við mér í dýrð.
Hvern á ég annars að á himnum?
Og hafi ég þig hirði ég eigi um neitt á jörðu.
Þótt hold mitt og hjarta tærist
er Guð bjarg hjarta míns og hlutskipti mitt um eilífð.
Pistill: 1Kor 15.51-58
Það segi ég, systkin,[ að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann. Sjá, ég segi ykkur leyndardóm: Við munum ekki öll deyja en öll munum við umbreytast, í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu dauðir upp rísa óforgengilegir og við munum umbreytast. Forgengilegir og dauðlegir líkamir okkar eiga að breytast í óforgengilega líkami sem dauðinn nær ekki til.
En þegar það gerist og hið forgengilega breytist og verður ódauðlegt, þá rætist það sem ritað er:
Dauðinn er uppsvelgdur í sigur.
Dauði, hvar er sigur þinn?
Dauði, hvar er broddur þinn?
En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar. Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist! Þess vegna, mín elskuðu systkin,verið staðföst, óbifanleg, síauðug í verki Drottins. Þið vitið að Drottinn lætur erfiði ykkar ekki verða til ónýtis.
Guðspjall: Lúk 24.1-12
En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin sem þær höfðu búið. Þær sáu þá að steininum hafði verið velt frá gröfinni og þegar þær stigu inn fundu þær ekki líkama Drottins Jesú. Þær skildu ekkert í þessu en þá brá svo við að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum. Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: „Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra? Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess hvernig hann talaði við yður meðan hann var enn í Galíleu. Hann sagði að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur en rísa upp á þriðja degi.“
Og þær minntust orða hans, sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum.
Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu.En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki. Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það sem við hafði borið.
Sálmur 577
Sjá ljóma yfir húmsins höf
í heiði sól með lífsins gjöf,
er skín í dag frá Drottins gröf.
Hallelúja, Hallelúja, Hallelúja, Hallelúja.
Vér miklum þig, Kristur Maríuson.
Hann hefur sjálfan dauðann deytt,
hans dimmu nótt og broddum eytt
og krossins þraut í blessun breytt.
Hallelúja ...
Nú fagna þeir, sem þekkja hann,
og þakka stríðið sem hann vann
til lausnar fyrir fallinn mann.
Hallelúja ...
Í sælli gleði syngjum vér
þeim sigri lof, sem fenginn er,
og segjum: Drottinn, dýrð sé þér!
Hallelúja ...
Já, dýrð sé þér, Guðs þrenning há.
Lát þína elsku sigri ná
í hjarta manns sem himnum á.
Hallelúja ...
Sigurbjörn Einarsson