Uppstigningardagur
Litur: Hvítur.
Vers vikunnar:
,,Þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ (Jóh 12.32)
Bæn dagsins:
Jesús Kristur, himininn stendur opinn. Þú sýnir okkur jörðina. Þú ert hjá Guði. Þú ert nálægt okkur. Þú hefur himinn og jörð í höndum þínum. Þú heldur á okkur. Lof sé þér Kristur, Drottinn. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Slm 139.1-8
Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig,
hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það,
þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það
og alla vegu mína gjörþekkir þú.
Eigi er það orð á tungu minni
að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
Þú umlykur mig á bak og brjóst
og hönd þína hefur þú lagt á mig.
Sú þekking er undursamlegri en svo að ég fái skilið,
of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
Hvert get ég farið frá anda þínum,
hvert flúið frá augliti þínu?
Þótt ég stigi upp í himininn, þá ertu þar,
þótt ég gerði undirheima að hvílu minni, þá ertu einnig þar.
Þótt ég lyfti mér á vængjum morgunroðans
og settist við hið ysta haf,
einnig þar mundi hönd þín leiða mig
og hægri hönd þín halda mér.
Pistill: 1Jóh 2.15-17
Elskið hvorki heiminn né það sem í heiminum er. Sá sem elskar heiminn elskar ekki föðurinn. Því að allt sem maðurinn girnist, allt sem glepur augað, allt oflæti vegna eigna er ekki frá föðurnum heldur frá heiminum. Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans en sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu.
Guðspjall: Lúk 24.(44-49,) 50-53
Og hann sagði við þau: „Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: Allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.“
Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar. Og hann sagði við þau: „Svo er skrifað að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum að taka sinnaskiptum og þiggja fyrirgefningu synda og hefja það í Jerúsalem. Þið eruð vottar þessa. Ég sendi ykkur andann sem faðir minn hét ykkur en verið kyrr í borginni uns þið íklæðist krafti frá hæðum.“
Síðan fór hann með þau út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þau. En það varð, meðan hann var að blessa þau, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins. En þau féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði. Og þau voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð.
Sálmur 826
Þú settir þig neðst hjá þeim smæstu á jörð.
Þú settir þig upp móti voldugra gjörð.
Þú settir þig inn í hins svívirta neyð.
Þú settir þig hátt yfir ótta og deyð.
Þú talar frá hæðum, hér ertu þó nær
því hvergi og enginn þar svikið þig fær.
Þú lifir og þjáist og elskar enn hér
og ekkert er líf nema lífið í þér.
Þú kallar á jörð eftir frelsi og frið,
þótt föllum vér frá samt þú veitir oss grið,
þú fylgir oss dýpst inn í kvalinna kíf,
þú kveikir í oss mitt í dauðanum líf.
Þú sendir oss niður í lægingu lægst,
þú leiðir oss upp til hins volduga hæst.
Þú lifir í oss innst í leyndum. Þig kýs
sá er lifir í þér efsti dagur er rís.
Hans Anker Jørgensen - Kristján Valur Ingólfsson