Annar hvítasunnudagur
Litur: Rauður.
Vers vikunnar:
„Ekki með valdi né krafti heldur fyrir anda minn, segir Drottinn allsherjar.“ (Sak 4.6b)
Bæn dagsins:
Andi sannleikans, þú sem heimurinn á svo erfitt með að skilja, vek upp í hjörtum okkar ótta og ugg við komu þína. Gef okkur þrá eftir friði þínum og tendra í okkur löngun til að mæla þitt máttuga orð til heimsins. Heyr þá bæn í Jesú nafni. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Esk 11.19-20
Þá mun ég gefa þeim eindrægt hjarta og leggja þeim nýjan anda í brjóst. Ég mun fjarlægja steinhjartað úr líkama þeirra og gefa þeim hjarta úr holdi svo að þeir fylgi lögum mínum og haldi reglur mínar og framfylgi þeim. Þá skulu þeir verða mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð.
Pistill: 1Kor 12.12-13
Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur. Í einum anda vorum við öll skírð til að vera einn líkami, hvort sem við erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og öll fengum við einn anda að drekka.
Guðspjall: Jóh 4.19-26
Konan segir við hann: „Drottinn, nú sé ég að þú ert spámaður. Feður okkar hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli en þið segið að í Jerúsalem sé sá staður þar sem tilbiðja skuli.“
Jesús segir við hana: „Trú þú mér, kona. Sú stund kemur að þið munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem. Þið tilbiðjið það sem þið þekkið ekki. Við tilbiðjum það sem við þekkjum því hjálpræðið kemur frá Gyðingum. En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra tilbiðjenda. Guð er andi og þeir sem tilbiðja hann eiga að tilbiðja í anda og sannleika.“
Konan segir við hann: „Ég veit að Messías kemur – það er Kristur. Þegar hann kemur mun hann kunngjöra okkur allt.“
Jesús segir við hana: „Ég er hann, ég sem við þig tala.“
Sálmur 827
Sjá, Drottins mátt og dýrð
á degi heilags anda!
Hann tignar kristin trú
á tungum allra landa
og vegsamar hans verk.
Það vinnur mildin hans
að hjartað ratar heim
í himin kærleikans.
Ó, lindin eilífs ljóss,
þú lýstir myrkrið kalda
er orð Guðs föður fyrst
skein fram með dögun alda.
Það orð í Kristi kom
með krossins sáttargjörð.
Þá brustu dauðans bönd,
þín birta skein um jörð.
Þín náð í hjartans nánd
er ný á hverjum morgni
með auð sem aldrei bregst
þótt aðrar lindir þorni.
Ó, vek þú vora önd
svo víki hel og synd
en ríki, sigri sál
Guðs sonar heilög mynd.
Kom, himnesk sumarsól,
kom, sunna heilags anda,
og hjálpa þinni hjörð
í heimsins neyð og vanda
að vaka, vera trú
og vitna um þinn dag
sem endurfæðir allt
við efsta sólarlag.
Sigurbjörn Einarsson