6. sunnudagur páskatímans (Exaudi)
Litur: Hvítur eða rauður.
Vers vikunnar:
Jesús segir: „Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ (Jóh 12.32)
Bæn dagsins:
Guð, á himni og á jörðu lýsir ljós þitt okkur. Orð þitt leitar okkur uppi og sest að í hjörtunum. Þannig sendir þú okkur anda þinn til að leiða okkur. Vert þú með okkur svo að við séum með þér í dag og ævinlega. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Slm 119.65-72
Þú hefur gert vel til þjóns þíns
eftir orði þínu, Drottinn.
Veit mér dómgreind og þekkingu
því að ég treysti boðum þínum.
Áður en ég varð auðmjúkur villtist ég
en nú varðveiti ég orð þitt.
Þú ert góður og gerir vel,
kenn mér lög þín.
Hrokafullir spinna upp lygar gegn mér
en ég fylgi boðum þínum af öllu hjarta.
Hjarta þeirra er sljótt og feitt
en ég hef yndi af lögmáli þínu.
Það varð mér til góðs að ég var beygður
svo að ég gæti lært lög þín.
Lögmálið úr munni þínum er mér mætara
en þúsundir skildinga úr silfri og gulli.
Pistill: Kól 3.8-11
En nú skuluð þið segja skilið við allt þetta: reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð. Ljúgið ekki hvert að öðru því þið hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðst hinum nýja sem Guð er að skapa að nýju í sinni mynd til þess að þið fáið gjörþekkt hann. Þar er hvorki grískur maður né Gyðingur, umskorinn né óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll né frjáls maður, þar er Kristur allt og í öllum.
Guðspjall: Jóh 15.18-25
Ef heimurinn hatar yður þá vitið að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þér af heiminum mundi heimurinn elska sína. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum heldur hef ég útvalið yður úr heiminum. Minnist orðanna sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi menn ofsótt mig þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt munu þeir líka varðveita yðar. En allt þetta munu þeir yður gera vegna nafns míns af því að þeir þekkja eigi þann sem sendi mig. Hefði ég ekki komið og talað til þeirra væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir ekkert til afsökunar synd sinni. Sá sem hatar mig hatar og föður minn. Hefði ég ekki unnið meðal þeirra þau verk sem enginn annar hefur gert væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir séð þau og hata þó bæði mig og föður minn. Svo hlaut að rætast orðið sem ritað er í lögmáli þeirra: Þeir hötuðu mig án saka.
Sálmur 330
Ó, Guð, mér anda gefðu þinn,
er glæðir kærleik, von og trú,
og veit hann helgi vilja minn,
svo vilji' eg það, sem elskar þú.
Æ, lát hann stjórna lífi' og sál,
að lifi' eg eins og kristnum ber,
og öll mín hugsun, athöfn, mál,
til æviloka helgist þér.
Þig, sem hið góða gefur allt,
ó, Guð, af hjarta bið ég nú:
Við ótta þinn mér ætíð halt
og elsku þína' og sanna trú.
Minn greiði veg þín gæskan blíð,
svo geti' eg trúr mitt runnið skeið,
en þegar lyktar lífsins stríð,
mér líkna þú í dauðans neyð.
Að ég sé blessað barnið þitt,
ég bið þinn andi vitni þá.
Æ, heyr þú hjartans málið mitt,
vor mildi faðir himnum á.
Sb. 1871 - Páll Jónsson