5. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„Því að af náð eruð þið hólpin orðin fyrir trú. Þetta er ekki ykkur að þakka. Það er Guðs gjöf.“ (Ef 2.8)
Bæn dagsins:
Eilífi Guð, þú sem kallar í þína þjónustu karla og konur og framkvæmir með þeim verk þitt á jörðu. Við biðjum þig: Opna þú eyru okkar og hjörtu, að við heyrum þegar þú kallar og fylgjum honum sem þú sendir, Jesú Kristi, sem er bróðir okkar og Drottinn, og lifir og ríkir með þér og heilögum Anda frá eilífð til eilífðar.
Þriðja lestraröð
Lexía: 1Mós 12.1-4a.
Drottinn sagði við Abram: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr
húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að
mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú
vera. Ég mun leiða blessun yfir þá sem blessa þig og bölvun yfir þann
sem formælir þér. Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun
hljóta.“ Þá lagði Abram af stað eins og Drottinn hafði sagt honum og
Lot fór með honum.
Pistill: Róm 16.1-7.
Ég bið ykkur fyrir hana systur okkar, Föbe, sem er djákni safnaðarins í Kenkreu. Veitið henni viðtöku vegna Drottins, eins og kristnum ber, og hjálpið henni með allt sem hún þarf
að fá hjá ykkur. Hún hefur verið bjargvættur margra, þar á meðal mín sjálfs. Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig. Fyrir það votta ég þeim þakkir, ekki ég einn heldur og allir söfnuðir meðal heiðinna þjóða. Heilsið einnig söfnuðinum sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið
Epænetusi, mínum elskaða. Hann er frumgróðinn handa Kristi í Asíu. Heilsið Maríu sem mikið hefur erfiðað fyrir ykkur. Heilsið Andróníkusi og Júníu, ættmennum mínum og sambandingjum. Þau skara fram úr meðal postulanna og gengu Kristi á hönd á undan mér.
Guðspjall: Lúk 8.1-3 .
Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf og konur nokkrar er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.
Sálmur 831
Þeir lögðu frá sér fisk og net
og fóru á eftir þér
því eitt er það sem áður var
en annað nú og hér
og nýjan himin, nýja jörð
hinn nýi maður sér.
Þitt forna tákn er fiskur sá
sem forðum ristur var
á laun í vegg, í við og stein
og við mér horfir hvar
sem neytt er víns og brotið brauð;
þú býrð og dvelur þar.
Þú kallar yfir alda haf
og allt sem milli ber
því þú ert orð af anda þeim
sem enginn maður sér.
Nú legg ég frá mér fisk og net
og fer á eftir þér.
Hjörtur Pálsson