2. sunnudagur eftir þrenningarhátíð - Gestaboðið / Köllun til Guðs ríkis
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
,,Komið til mín allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar og ég mun veita yður hvíld”. (Matt 11.28)
Bæn dagsins:
Trúfasti Guð, í syni þínum Jesú Kristi laukst þú upp hjarta þínu fyrir okkur og gafst okkur hann að bróður. Við þökkum þér að við megum eiga heima í kirkju þinni á jörðu og á himni. Hjálpa okkur að vaxa í trúnni og styrkjast í orði þínu. Gefðu okkur samfélag hvert við annað við borð þitt. Hjálpa okkur að bera vitni um gæsku þína, hvar sem við erum, í öllu því sem við gerum og erum. Í Jesú nafni. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Dóm 6.7-16
Þegar Ísraelsmenn hrópuðu til Drottins undan Midían sendi Drottinn spámann til Ísraelsmanna sem sagði við þá: „Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég leiddi ykkur út af Egyptalandi og frelsaði ykkur úr þrælahúsinu og ég frelsaði ykkur úr höndum Egypta og úr höndum allra þeirra sem kúguðu ykkur, ég hrakti þá undan ykkur og gaf ykkur land þeirra. Og ég sagði við ykkur: Ég er Drottinn, Guð ykkar. Þið skuluð ekki óttast guði Amorítanna en land þeirra byggið þið nú. En þið hlýdduð ekki rödd minni.“Þá kom engill Drottins og settist undir eikina í Ofra sem Jóas, niðji Abíesers, átti en Gídeon, sonur hans, var að þreskja hveiti í vínþröng til að fela það fyrir Midían. Og engill Drottins birtist honum og sagði við hann: „Drottinn er með þér, hugrakki hermaður.“ Þá sagði Gídeon við hann: „Ó, herra minn, sé Drottinn með okkur, hví hefur þá allt þetta yfir okkur gengið? Og hvar eru öll dásemdarverk hans sem feður okkar hafa skýrt frá og sagt: Leiddi Drottinn okkur ekki út af Egyptalandi? En nú hefur Drottinn hafnað okkur og selt í hendur Midíans.“ En Drottinn sneri sér að honum og sagði: „Farðu í styrkleika þínum og frelsaðu Ísrael úr höndum Midíans. Er það ekki ég sem sendi þig?“ Gídeon svaraði honum: „Æ, Drottinn, hvernig ætti ég að frelsa Ísrael? Ætt mín er aumasta ættin í Manasse og ég smæstur í ætt minni.“ Þá sagði Drottinn við hann: „Ég verð með þér og þú munt sigra Midíaníta alla sem einn.“
Pistill: Post 14.19.-22
Þá komu Gyðingar frá Antíokkíu og Íkóníum. Töldu þeir fólkið á sitt mál og menn grýttu Pál, drógu hann út úr borginni og hugðu hann dáinn. En lærisveinarnir slógu hring um hann og reis hann þá upp og gekk inn í borgina. Daginn eftir fór hann þaðan með Barnabasi til Derbe.
Þegar þeir höfðu boðað fagnaðarerindið í Derbe og gert marga að lærisveinum sneru þeir aftur til Lýstru, Íkóníum og Antíokkíu, styrktu lærisveinana og hvöttu þá til að vera staðfastir í trúnni. Þeir sögðu: „Við verðum að þola margar þrautir áður en við komumst inn í Guðs ríki.“
Guðspjall: Lúk 14. 25-35
Mikill fjöldi fólks var Jesú samferða. Hann sneri sér við og sagði við mannfjöldann: „Enginn getur komið til mín og orðið lærisveinn minn nema hann taki mig fram yfir föður og móður, maka og börn, bræður og systur og enda fram yfir eigið líf. Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér getur ekki verið lærisveinn minn.
Hver yðar sest ekki fyrst við ef hann ætlar að reisa turn og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu? Ella má svo fara að hann leggi undirstöðu en fái ekki lokið við og allir, sem það sjá, taki að spotta hann og segja: Þessi maður fór að byggja en gat ekki lokið.
Eða hvaða konungur fer með hernaði gegn öðrum konungi og sest ekki fyrst við og ráðgast um hvort honum sé fært að mæta með tíu þúsundum þeim er fer á móti honum með tuttugu þúsundir? Sé svo ekki gerir hann menn á fund andstæðingsins meðan hann er enn langt undan og spyr um friðarkosti. Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn nema hann segi skilið við allt sem hann á.
Saltið er gott en ef saltið sjálft dofnar með hverju á þá að krydda það? Hvorki er það hæft á tún né taðhaug. Því er fleygt. Hver sem eyru hefur að heyra, hann heyri.“
Sálmur 354
Fyrst er að vilja veginn finna,
vaka, biðja' í nafni hans,
meistaranna meistarans.
Þreytast ekki, vinna, vinna,
vísdóms æðstu köllun sinna:
Leita sífellt sannleikans.
Veistu', að hann er alla, alla
ævi þína' að leita' að þér,
fá þig einn í fylgd með sér?
Láttu' hann ekki lengur kalla:
Líður á daginn, skuggar falla,
fyrr en varir aldimmt er.
Ef þér finnst þú vera veikur,
viljakraft þinn hefta bönd,
gríptu þá hans hægri hönd.
Þú munt finna', að afl þér eykur
æðra magn, um taugar leikur
krafturinn frá hans kærleikshönd.
Sb. 1945 - Guðmundur Guðmundsson