4. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Samfélag syndaranna
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Gal 6.2)
Bæn dagsins:
Miskunnsami Guð, hvert ættum við að leita ef skilningur og fyrirgefning væru ekki til, heldur aðeins kuldi og harka og afskiptaleysi? Gefðu okkur hlutdeild í hjartagæsku þinni. Láttu okkur finna miskunnsemi, og lifa í henni og iðka hana, eins og þú sýndir okkur í Jesú Kristi. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Sak 7.8-10
Orð Drottins kom þá til Sakaría: Svo segir Drottinn allsherjar:
Fellið réttláta dóma
og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð.
Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum,
aðkomumönnum né fátæklingum
og hyggið ekki á ill ráð
hver gegn öðrum í hjarta yðar.
Pistill: Róm 14.1-6
Takið á móti trúarveikum án þess að dæma skoðanir þeirra. Einn er þeirrar trúar að alls megi neyta, annar er veikur í trúnni og neytir einungis jurtafæðu. Sá sem neytir skal ekki fyrirlíta hinn sem neytir ekki og sá sem neytir ekki skal ekki dæma þann sem neytir því að Guð hefur tekið á móti honum. Hvað átt þú með að dæma þjón annars manns? Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa því að megnugur er Drottinn þess að láta hann standa.
Einn gerir mun á dögum, annar metur alla daga jafna. Hver og einn fylgi sannfæringu sinni. Sá sem þykist verða að taka tillit til þess hvaða dagur er gerir svo vegna Drottins. Og sá sem neytir kjöts gerir það vegna Drottins því að hann gerir Guði þakkir. Hinn sem lætur óneytt gerir svo vegna Drottins og færir Guði þakkir.
Guðspjall: Matt 7.1-5
Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd. Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. Hví sér þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: Lát mig draga flísina úr auga þér? Og þó er bjálki í auga þínu. Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.
Sálmur (ekki í sálmabók)
Hví dæmir þú, ó, dauðlegt hold
og Drottins vald þér tekur?
Hvað dirfist þú, ó, maður, mold,
svo mjög í dómum frekur?
Hví viltu´um þig ei hafa hægt
og hugsa gott og dæma vægt?
Ert þú ei sjálfur sekur?
Sá dæmir aðra, dæmir sig,
að dómi Guðs hins ríka.
Ef viltu´að dæmt sé vægt um þig,
þá væg þú öðrum líka.
Þú mælir öðrum hróp og háð,
en heimtar þér sé mæld út náð.
Ei hygg á heimsku slíka.
Að dæma strangt og hart er hægt,
það hræsni´ og vonska getur,
en menn að dæma milt og vægt,
það mönnum sæmir betur.
Að dæma brot og bresti manns
er barnsins ei en dómarans.
Í hans þú sess þig setur.
Ó, mundu´að Drottinn dæmir þig.
en dæm þú bræður eigi.
Hver dæmi fyrst um sjálfan sig
og sínum gæti´ að vegi.
Ó, hver mun reynast hreinn og sýkn,
ef honum eigi sýnd er líkn
á dómsins mikla degi.
Valdimar Briem