22. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Í skuld við Guð.Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„En hjá þér er fyrirgefning svo að menn óttist þig. “ (Slm 130.4)
Kollekta:
Drottinn Guð, sem ert athvarf vort og styrkur og einn gefur sanna trú: Heyr bænir kirkju þinnar og lát oss fá að reyna, að þú veitir oss það, sem vér biðjum um. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: 1Mós 50.15-21
Eftir andlát föður síns hugsuðu bræður Jósefs: „Vera má að Jósef beri illan hug til okkar og endurgjaldi okkur allt hið illa sem við höfum gert honum.“ Þess vegna sendu þeir Jósef eftirfarandi skilaboð: „Áður en faðir þinn dó bað hann okkur að segja við þig: Fyrirgefðu bræðrum þínum misgjörð þeirra og synd, það illa sem þeir gerðu þér. Þess vegna biðjum við þig að fyrirgefa þjónum þess Guðs, sem faðir þinn dýrkaði, þá synd sem við höfum drýgt.“ Við þessi orð þeirra brast Jósef í grát.
Þá komu bræður hans sjálfir og féllu fram fyrir honum og sögðu: „Við erum þrælar þínir.“ En Jósef sagði við þá: „Óttist ekki því að ekki kem ég í Guðs stað. Þið ætluðuð að gera mér illt en Guð sneri því til góðs. Hann vildi gera það sem nú er orðið og þannig varðveita líf margra manna. Verið því óhræddir, ég skal annast ykkur og börn ykkar.“ Síðan hughreysti hann þá og talaði vingjarnlega til þeirra.
Pistill: Fil 1.3-11
Ég þakka Guði mínum í hvert skipti sem ég hugsa til ykkar og geri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir ykkur öllum vegna samfélags ykkar um fagnaðarerindið frá því þið tókuð við því og allt til þessa. Ég fulltreysti einmitt því að hann, sem byrjaði í ykkur góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.
Víst er það rétt fyrir mig að bera þennan hug til ykkar allra. Ég hef ykkur í hjarta mínu og þið eigið öll hlutdeild með mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og eins er ég er að verja fagnaðarerindið og sannfæra menn um gildi þess. Guð er mér þess vitni hvernig ég þrái ykkur öll með ástúð Krists Jesú.
Og þess bið ég að elska ykkar aukist enn þá meir að þekkingu og dómgreind svo að þið getið metið þá hluti rétt sem máli skipta og verðið hrein og ámælislaus til dags Krists, auðug að þeim réttlætisávexti sem Jesús Kristur kemur til leiðar Guði til lofs og dýrðar.
Guðspjall: Matt 18.21-35
Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“
Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.
Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur.
Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.
Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.
Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“
Sálmur: 187
Ó, skapari hvað skulda ég?
Ég skulda fyrir vit og mál.
Mín skuld er stór og skelfileg,
ég skulda fyrir líf og sál.
Ég skulda fyrir öll mín ár
og allar gjafir, fjör og dáð,
í skuld er lán, í skuld er tár,
í skuld er, Drottinn, öll þín náð.
Ó, skapari, hvað skulda ég?
Í skuld er, Guð, þín eigin mynd.
Ó, mikla skuld, svo skelfileg,
því skemmd er hún af minni synd.
Haf meðaumkun, ó, Herra hár,
ég hef ei neitt að gjalda með,
en álít þú mín angurstár
og andvörp mín og þakklátt geð.
Og þegar loks mitt lausnargjald
ég lúka skal, en ekkert hef,
við Krists, míns Herra, klæðafald
ég krýp og á þitt vald mig gef.
Matthías Jochumsson
Bæn dagsins:
Heilagi Guð, kærleikur þinn vinnur bug á valdi hins illa. Við biðjum þig: hjálpa okkur að breytast og batna, svo að við elskum hvert annað eins og þú elskar okkur, að við fyrirgefum hvert öðru, eins og þú fyrirgefur okkur, og styðjum hvert annað eins og þú styður okkur, til þess að fyrirgefningin megi móta heiminn. Þér sé lof að eilífu. Amen.