19. sunnudagur eftir trinitatis: Lækning líkama og sálar / Kraftur trúarinnar
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
Lækna mig Drottinn svo að ég verði heill; hjálpa mér svo að ég bjargist, því að þú ert lofsöngur minn. (Jer 17.14)
Bæn dagsins:
Drottinn Guð, þú gefur kjark og ráð til að gjöra það sem rétt er. Kenndu okkur að lifa samkvæmt boðum þínum og fullgjöra það sem er þér til dýrðar og til eflingar ríki þínu. Fyrir Jesú Krist lausnara okkar og bróður.
Þriðja lestraröð
Lexía: Slm 33.12-22
Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði,
þjóðin sem hann valdi sér til eignar.
Drottinn lítur niður af himni,
sér öll mannanna börn.
Frá hásæti sínu virðir hann fyrir sér
alla jarðarbúa,
hann sem skapaði hjörtu þeirra allra
og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.
Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns,
eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.
Svikull er víghestur til sigurs,
með ofurafli sínu bjargar hann ekki.
En augu Drottins vaka yfir þeim sem óttast hann,
þeim er vona á miskunn hans.
Hann frelsar þá frá dauða,
heldur lífinu í þeim í hungursneyð.
Vér vonum á Drottin,
hann er hjálp vor og skjöldur.
Yfir honum fagnar hjarta vort,
hans heilaga nafni treystum vér.
Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss
því að vér vonum á þig.
Pistill: Kól 1.24- 29
Nú er ég glaður í þjáningum mínum ykkar vegna og uppfylli með þjáningum líkama míns það sem enn vantar á þjáningar Krists til heilla fyrir líkama hans, kirkjuna. Hennar þjónn er ég orðinn og hef það hlutverk að boða Guðs orð óskorað, leyndardóminn sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða en hefur nú verið opinberaður Guðs heilögu. Guð vildi opinbera þeim hvílíkan dýrðarríkdóm heiðnar þjóðir eiga í þessum leyndardómi sem er Kristur meðal ykkar, von dýrðarinnar.
Hann boða ég, áminni og fræði hvern mann með allri speki að ég megi leiða alla fram fullkomna í Kristi. Að þessu strita ég og stríði með þeim mætti sem Kristur lætur kröftuglega verka í mér.
Guðspjall: Jóh 1.43-51
Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: „Fylg þú mér!“ Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur. Filippus fann Natanael og sagði við hann: „Við höfum fundið þann sem Móse skrifar um í lögmálinu og einnig spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs.“
Natanael sagði: „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“
Filippus svaraði: „Kom þú og sjá.“
Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: „Hér er sannur Ísraelíti sem engin svik eru í.“ Natanael spyr: „Hvaðan þekkir þú mig?“
Jesús svarar: „Ég sá þig undir fíkjutrénu áður en Filippus kallaði á þig.“
Þá segir Natanael: „Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels.“
Jesús spyr hann: „Trúir þú af því að ég sagði við þig: Ég sá þig undir fíkjutrénu? Þú munt sjá það sem þessu er meira.“ Og hann segir við hann: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn.“
Sálmur 836
Guð faðir, þín hátign, þitt heilaga vald
er hulið í dýrð bak við geislanna fald,
frá ljóma þíns auglits. Þitt eilífa ráð
fá englarnir hæstu ei skynjað né tjáð.
En með þeim vér tignum þín voldugu verk
og vitum að hönd þín er gjöful og sterk,
að hjálp þín ei brestur, né geigar þín gjörð
að gæska þín umvefur himin og jörð.
Þú gefur oss lífið, vér lifum í þér,
þín líkn er í öllu, jafnt hulin sem ber.
Þótt falli vor heimur sem fis eða strá
þín föðurnáð varir og breytast ei má.
Svo hefur þú birt oss þitt blessaða vald,
svo brosir þín mynd gegnum himnanna tjald,
því sonur þíns kærleika, Kristur, er hér
hann kom þig að birta og gefa oss þér.
Og trúin þig sér, er vér tilbiðjum hann,
sem tók á sig duft vort og frelsið oss vann,
þá vitnar þinn andi að vald þitt og ráð
er viska og trúfesti, elska og náð.
W. Chalmers Smith - Sigurbjörn Einarsson