18. sunnudagur eftir trinitatis: Æðsta boðorðið / Að hlusta í trú
Litur: Grænn
Vers vikunnar:
Og þetta boðorð höfum vér frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn. (1Jóh 4.21)
Bæn dagsins:
Einföld og skír eru boð þín Drottinn. Þú hefur boðið okkur að elska þig af öllu hjarta og náungann eins og okkur sjálf. Hjálpa þú okkur að lifa samkvæmt leiðsögn kærleika þíns í krafti anda þíns. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: 3Mós 19.1-2, 15-18
Drottinn talaði við Móse og sagði:
„Ávarpaðu allan söfnuð Ísraelsmanna og segðu: Verið heilagir því að ég, Drottinn, Guð ykkar, er heilagur.
Þegar þið skerið upp kornið í landi ykkar skaltu hvorki hirða af ysta útjaðri akurs þíns né dreifarnar á akri þínum. Þú skalt hvorki tína allt í víngarði þínum né hirða ber sem falla í víngarði þínum. Þú skalt skilja þetta eftir handa hinum fátæka og aðkomumanninum. Ég er Drottinn, Guð ykkar.
Þú skalt ekki bera hatur í brjósti til bróður þíns heldur átelja hann einarðlega svo að þú berir ekki sekt hans vegna. Þú skalt ekki hefna þín á löndum þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.
Pistill: 1Jóh 2.1- 6
Börnin mín! Þetta skrifa ég ykkur til þess að þið skulið ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum við málsvara hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir okkar og ekki einungis fyrir syndir okkar heldur líka fyrir syndir alls heimsins.
Þá vitum við að við þekkjum hann ef við höldum boðorð Guðs. Sá sem segir: „Ég þekki hann,“ og heldur ekki boðorð hans er lygari og sannleikurinn er ekki í honum. En hver sem varðveitir orð Guðs, hann elskar sannarlega Guð á fullkominn hátt. Þannig þekkjum við að við erum í honum. Þeim sem segist vera í honum ber sjálfum að breyta eins og Jesús Kristur breytti.
Guðspjall: Mrk 4.21-25
Og Jesús sagði við þá: „Ekki bera menn inn ljós og setja það undir mæliker eða bekk. Er það ekki sett á ljósastiku? Því að ekkert er hulið að það verði eigi gert opinbert né leynt að það komi ekki í ljós. Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!“
Enn sagði hann við þá: „Gætið að hvað þið heyrið. Með þeim mæli, sem þið mælið, mun ykkur mælt verða og við ykkur bætt. Því að þeim sem hefur mun gefið verða og frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur.“
Sálmur 835
:,: Heyr þann boðskap er boða við megum
bundinn friði og réttlæti í heimi. :,:
:,: um trú, von og kærleik,
þar er sigur hins góða á jörð. :,:
:,: Þetta guðspjall sem gaf okkur Kristur
gefur fátækum nýtt líf og fögnuð, :,:
:,: og trú, von og kærleik.
Þar er sigur hins góða á jörð. :,:
:,: Þetta guðspjall sem gaf okkur Kristur
gefur þrælum og fjötruðum frelsi, :,:
:,: og trú, von og kærleik.
Þar er sigur hins góða á jörð. :,:
:,: Með þeim boðskap sem boða við eigum
boðast líkn hinum þjáðu og smáðu, :,:
:,: með trú, von og kærleik.
Þar er sigur hins góða á jörð. :,:
Frá S-Ameríku Kristján Valur Ingólfsson