13. sunnudagur eftir trinitatis: Miskunnsami samverjinn / Náungi minn Dagur díakoníunnar
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
Kristur segir: Allt sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra það hafið þér gjört mér. (Matt 25.40)
Bæn dagsins:
Guð, sem elskar, þú sem sérð eymd og neyð okkar mannanna og sendir son þinn til þess að þjóna okkur í kærleika. Hjálpa þú okkur að líkjast honum. Gefðu okkur góðvild og miskunnsemi svo að við göngum ekki framhjá þeim sem þarfnast hjálpar okkar. Heyr þá bæn fyrir Jesú Krist. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: 2Kro 28.8-15
Ísraelsmenn fluttu í útlegð tvö hundruð þúsund ættmenni sín, konur, syni og dætur. Þeir tóku einnig mikið herfang af þeim og fluttu það til Samaríu.
Þar bjó spámaður Drottins að nafni Ódeð. Hann gekk á móti hernum, sem var að koma heim til Samaríu, og sagði: „Drottinn, Guð feðra ykkar, reiddist Júda. Þess vegna hefur hann selt þá ykkur í hendur. En þið hafið fellt þá af þeirri heift sem hrópar til himins. Nú ætlið þið að kúga Júdamenn og íbúa Jerúsalem með því að gera þá að þrælum ykkar og ambáttum. En eruð þið sjálfir ekki orðnir sekir gagnvart Drottni, Guði ykkar? Hlustið nú á mig. Sendið aftur fangana sem þið hafið tekið af ættbræðrum ykkar því að annars vofir brennandi reiði Drottins yfir ykkur.“
Því næst gengu nokkrir af leiðtogum Efraímíta á móti þeim sem voru að koma heim úr herförinni. Það voru Asarja Jóhanansson, Berekía Mesillemótsson, Hiskía Sallúmsson og Amasa Hadlaíson. Þeir ávörpuðu þá og sögðu: „Komið ekki hingað með fangana. Með því munuð þið auka við sekt okkar og synd gegn Drottni en sekt okkar er þegar mikil og heiftarreiði gegn Ísrael.“
Þá skildu stríðsmennirnir fangana og herfangið eftir frammi fyrir leiðtogunum og öllum söfnuðinum. Síðan gengu þeir menn fram sem höfðu verið valdir til þess með nafnakalli og tóku fangana að sér. Þeir klæddu þá sem voru naktir, gáfu þeim klæði og skó af herfanginu, gáfu þeim að eta og drekka og smurðu þá smyrslum. Því næst fluttu þeir alla, sem ekki gátu gengið, á ösnum til Jeríkó, pálmaborgarinnar, til ættbræðra þeirra og sneru síðan aftur heim til Samaríu.
Pistill: 1Kor 13.8-13
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok,
og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.
Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.
En þegar hið fullkomna kemur líður það undir lok sem er í molum.
Þegar ég var barn talaði ég eins og barn,
hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn.
En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn.
Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu,
en þá munum vér sjá augliti til auglitis.
Nú er þekking mín í molum
en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.
En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur.
Guðspjall: Jóh 9.24-41
Nú kölluðu þeir í annað sinn á manninn, sem blindur hafði verið, og sögðu við hann: „Gef þú Guði dýrðina. Við vitum að þessi maður er syndari.“
Hann svaraði: „Ekki veit ég hvort hann er syndari. En eitt veit ég að ég, sem var blindur, er nú sjáandi.“
Þá sögðu þeir við hann: „Hvað gerði hann við þig? Hvernig opnaði hann augu þín?“
Hann svaraði þeim: „Ég er búinn að segja ykkur það og þið hlustuðuð ekki á það. Hví viljið þið heyra það aftur? Viljið þið líka verða lærisveinar hans?“
Þeir atyrtu hann og sögðu: „Þú ert lærisveinn hans, við erum lærisveinar Móse. Við vitum að Guð talaði við Móse en við vitum ekki hvaðan þessi maður er.“
Maðurinn svaraði þeim: „Þetta er furðulegt, að þið vitið ekki hvaðan hann er og þó opnaði hann augu mín. Við vitum að Guð heyrir ekki bænir syndara. Hann bænheyrir hvern þann sem er guðrækinn og fer að Guðs vilja. Frá alda öðli hefur ekki heyrst að nokkur hafi gert þann sjáandi sem blindur var borinn. Ef þessi maður væri ekki frá Guði gæti hann ekkert gert.“
Þeir svöruðu honum: „Þú ert syndum vafinn frá fæðingu og ætlar að kenna okkur!“ Og þeir ráku hann út.
Jesús heyrði að þeir hefðu rekið hann út. Hann fann hann og sagði við hann: „Trúir þú á Mannssoninn?“
Hinn svaraði: „Herra, hver er sá að ég megi trúa á hann?“
Jesús sagði við hann: „Þú hefur séð hann, hann er sá sem er nú að tala við þig.“
En hann sagði: „Ég trúi, Drottinn,“ og féll fram fyrir honum. Jesús sagði: „Til dóms er ég kominn í þennan heim, til þess að blindir sjái og sjáandi verði blindir.“
Þetta heyrðu þeir farísear sem með honum voru og spurðu: „Erum við þá líka blindir?“
Jesús sagði við þá: „Ef þið væruð blindir væruð þið án sakar. En nú segist þið vera sjáandi, því varir sök ykkar.
Sálmur 390
Ég trúi' á Guð, þó titri hjartað veika
og tárin blindi augna minna ljós,
ég trúi, þótt mér trúin finnist reika
og titra líkt og stormi slegin rós,
ég trúi, því að allt er annars farið
og ekkert, sem er mitt, er lengur til,
og lífið sjálft er orðið eins og skarið,
svo eg sé varla handa minna skil.
Ég trúi' á Guð. Ég trúði alla stund,
og tár mín hafa drukkið Herrans ljós
og vökvað aftur hjartans liljulund,
svo lifa skyldi þó hin besta rós.
Já, þó mér sífellt svíði dreyrug und,
skal sál mín óma fram að dauðans ós:
"Ég trúi." Þó mig nísti tár og tregi,
ég trúi' á Guð og lifi, þó ég deyi.
Sb. 1945 - Matthías Jochumsson