9. sunnudagur eftir þrenningarhátíð - Gjafir andans / Góðir ráðsmenn
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
„Hver sem mikið er gefið verður mikils krafinn og af þeim verður meira heimtað sem meira er léð.“ (Lúk 12.48b)
Bæn dagsins:
Drottinn Guð, gjafari allra góðra hluta, við erum oft óróleg í þessum heimi þar sem gróði eða tap virðast skipta svo miklu máli og verðum hrædd um að tapa. Gefðu okkur kjark til að reikna með þér. Gefðu okkur hlutdeild í auðlegð réttlætis þíns, svo að við eignumst lífið fyrir Jesú Krist.
Þriðja lestraröð
Lexía: Am 8.4-7
Heyrið þetta, þér sem troðið fátæklingana niður
og gerið út af við þurfamenn í landinu.
Þér sem spyrjið: „Hvenær tekur tunglkomuhátíðin enda
svo að vér getum haldið áfram að selja korn?
Hvenær líður hvíldardagurinn hjá?
Vér viljum geta opnað kornhlöðurnar.
Vér ætlum að minnka kornmálið, hækka verðið og falsa vogina.
Þá getum vér keypt hina umkomulausu fyrir silfur
og fátæklinginn fyrir eina ilskó.
Það er úrgangskorn sem vér seljum.“
Drottinn hefur svarið við stolt Jakobs:
Aldrei nokkru sinni mun ég gleyma verkum þeirra.
Pistill: Ef 5.8b-14
Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni. Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins. – Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. – Metið rétt hvað Drottni þóknast. Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim. Því að það sem slíkir menn fremja í leyndum er jafnvel svívirðilegt um að tala. En allt það sem ljósið afhjúpar verður augljóst. Því að allt sem er augljóst er í ljósi.
Því segir svo:
Vakna þú sem sefur
og rís upp frá dauðum
og þá mun Kristur lýsa þér.
Guðspjall: Lúk 16.10-13
Sá sem er trúr í því smæsta er einnig trúr í miklu og sá sem er ótrúr í því smæsta er og ótrúr í miklu. Ef ekki er hægt að treysta yður fyrir hverfulum auðæfum, hver trúir yður þá fyrir sönnum auði? Og ef ekki er hægt að treysta yður fyrir eigum annarra, hvernig getur Guð þá treyst yður fyrir því sem hann ætlar yður að eiga sjálf? Enginn þjónn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“
Sálmur 898
Þú opnar, Drottinn, hús þitt hér
og himin ljóssins trúin sér.
Í páskaljóma lýsir hann
með lífsins gjöf sem krossinn vann.
Og þú sem átt á öllu ráð,
send anda þinn með kraft og náð
að lífga, hreinsa hug og sál
og helga tungu, söng og mál.
Lát vakna kærleik, von og trú,
á vald þíns ríkis huga snú,
að húsi þínu hjartað ger
sem helgað verði einum þér.
Vér finnum ástarþelið þitt
sem þekkir týnda barnið sitt
og vilt það fá í faðminn þinn
svo fagni allur himinninn.
Guðs sonur, Jesús, orðið er
sem ást Guðs föður vitni ber
og heilags anda hjálp og mál
fær honum vist í trúrri sál.
Í lotningu vér lútum hér
í lífsins húsi einum þér
og færum lof sem framast má
vor fátæk önd og rómur tjá.
Sigurbjörn Einarsson