20. sunnudagur eftir trinitatis: Reglur Guðs. / Að lifa í samfélagi hvert við annað
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
Hann hefur sagt þér maður hvað gott sé. Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og framganga í lítillæti fyrir Guði þínum? (Mík 6.8)
Bæn dagsins:
Guð birtunnar og skýrleikans. Þú sýnir okkur veginn sem þú villt að við göngum. Þegar við tökum ákvörðun og framkvæmum í samræmi við vilja þinn gef okkur þá kjark til að taka nægilega stór skref. Fyrir Jesú Krist sem er upphaf og fullkomnun trúarinnar. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: 1Sam 20.35-43
Morguninn eftir gekk Jónatan út á vellina eins og þeir Davíð höfðu ákveðið og hafði ungan dreng með sér. Hann sagði við drenginn: „Farðu og finndu örvarnar sem ég skýt.“ Drengurinn hljóp af stað og hann skaut ör fram hjá honum. Þegar drengurinn kom þangað sem Jónatan hafði miðað örinni kallaði Jónatan til hans: „Liggur örin ekki lengra frá þér?“ Jónatan kallaði enn fremur á eftir drengnum: „Áfram nú, flýttu þér, stattu ekki kyrr.“ Drengurinn tók örina upp, sneri aftur til húsbónda síns og grunaði ekkert. Jónatan og Davíð vissu einir hvað um var að vera. Síðan fékk Jónatan drengnum, sem með honum var, vopn sín og sagði: „Farðu með þetta til borgarinnar.“ Þegar drengurinn var farinn reis Davíð upp úr fylgsninu við steininn, laut Jónatan þrisvar og varpaði sér til jarðar. Þeir kysstust og grétu báðir en Davíð sýnu meir. Jónatan sagði við hann: „Far þú í friði. Drottinn er ævarandi vitni okkar og afkomenda okkar að því sem við höfum svarið hvor öðrum við nafn hans.“
Pistill: 1Þess 4.1-8
Að endingu bið ég ykkur, bræður og systur,og hvet ykkur í Drottni Jesú til að breyta eins og þið hafið numið af mér og þóknast Guði eins og þið reyndar gerið. En takið enn meiri framförum. Þið vitið hvaða fyrirmæli ég gaf ykkur frá Drottni Jesú. Það er vilji Guðs að þið verðið heilög. Hann vill að þið haldið ykkur frá óskírlífi, að sérhvert ykkar temji sér að halda líkama sínum í helgun og heiðri en ekki í losta eins og heiðingjarnir er ekki þekkja Guð. Og enginn skyldi ganga á hlut eða blekkja nokkurn bróður eða systur í slíkum sökum. Því að Drottinn hegnir fyrir allt þvílíkt eins og ég hef áður sagt ykkur og varað ykkur við. Ekki kallaði Guð okkur til saurlifnaðar heldur helgunar. Sá sem lítilsvirðir þetta lítilsvirðir þess vegna ekki mann heldur Guð sem gefur ykkur sinn heilaga anda.
Guðspjall: Matt 21.33-44
Enn sagði Jesús: „Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi. Þegar ávaxtatíminn nálgaðist sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn. En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja. Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá. Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: Þeir munu virða son múinn. Þegar vínyrkjarnir sáu soninn sögðu þeir sín á milli: Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann og náum arfi hans. Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.
Hvað mun nú eigandi víngarðsins gera við vínyrkja þessa þegar hann kemur?“
Þeir svara: „Hann mun vægðarlaust tortíma þeim vondu mönnum og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma.“
Og Jesús segir við þá: „Hafið þið aldrei lesið í ritningunum:
Steinninn sem smiðirnir höfnuðu
er orðinn að hyrningarsteini.
Þetta er verk Drottins
og undursamlegt í augum vorum.
Þess vegna segi ég ykkur: Guðs ríki verður tekið frá ykkur og gefið þeirri þjóð sem ber ávexti þess. Sá sem fellur á þennan stein mun sundur molast og þann sem hann fellur á mun hann sundur merja.
Sálmur 729
Þú heimsins ljós, Guðs ljómi skær,
ó, lýs þú, Kristur, fjær og nær,
leið alla týnda til þín heim
og tak í náð á móti þeim.
Lát alla, sem ei þekkja þig,
og þá, sem sem villast, átta sig,
frá birtu þinni bjarma fá
og blessun finna, marki ná.
Vek, hirðir góði, hverja sál,
sem hyllir blekking, lokkar tál,
og hverja sjúka, sára önd
þín sefi mjúka læknishönd.
Lát eyrun daufu opnast þér,
ljúk upp þeim hug, sem byrgður er,
svo hjartað finni frelsi sitt
og friðinn eina, ríki þitt.
Gef blindum augum bót og sýn,
að birtist öllum náðin þín,
ger alla menn að einni hjörð
í einni trú á nýrri jörð.
Svo verði allir eitt í þér,
sem allra synd og raunir ber,
eins hér á jörð sem himnum á,
þú hjartans sanna von og þrá.
Heermann - Sigurbjörn Einarsson