26. sunnudagur eftir trinitatis Eða :Næstsíðasti sunnudagur kirkjuársins – Dómur yfir heiminum / Endurkoman
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
Öllum ber oss að birtast fyrir dómstóli Krists. (2Kor 5.10)
Bæn dagsins:
Drottinn, hjálpa mér að efast ekki um að þú ert Guð, Jesús er frelsari minn og þú hjá mér með heilögum anda þínum í dag og að eilífu. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: 2Mós 34.4-9
Móse hjó tvær steintöflur eins og hinar fyrri. Hann var snemma á fótum morguninn eftir og gekk upp á Sínaífjall eins og Drottinn hafði boðið honum og hélt á báðum steintöflunum.Drottinn steig niður í skýi og nam staðar þar hjá Móse. Hann hrópaði nafn Drottins. Drottinn gekk fram hjá honum og hrópaði: „Drottinn, Drottinn er miskunnsamur og náðugur Guð, seinn til reiði, gæskuríkur og trúfastur. Hann sýnir þúsundum gæsku, fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir en lætur hinum seka ekki óhegnt heldur lætur afbrot feðranna bitna á börnum og barnabörnum í þriðja og fjórða lið.“
Móse lét sig þegar í stað falla til jarðar og sagði: „Hafi ég fundið náð fyrir augum þínum, Drottinn, komdu þá með okkur, Drottinn. Þótt þetta sé harðsvíruð þjóð, fyrirgefðu okkur sekt okkar og syndir og gerðu okkur að eign þinni.“
Pistill: 2Þess 1.3-7
Skylt er okkur, bræður og systur, og maklegt að þakka Guði ætíð fyrir ykkur því að trú ykkar eykst stórum og kærleiki ykkar allra hvers til annars fer vaxandi. 4 Því get ég miklast af ykkur í söfnuðum Guðs fyrir þolgæði ykkar og trú í öllum ofsóknum ykkar og þrengingum Þær birta réttlátan dóm Guðs og að hann muni meta ykkur makleg Guðs ríkis sem þið nú líðið illt fyrir. Guð er réttlátur, hann endurgeldur þeim þrengingu sem að ykkur þrengja en veitir ykkur, sem þrengingu líðið, hvíld ásamt mér þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með máttugum englum sínum.
Guðspjall: Lúk 12.1-7
Fólk hafði nú flykkst að í tugum þúsunda svo að nærri tróð hver annan undir.
Jesús tók þá að tala, fyrst til lærisveina sinna: „Varist súrdeig farísea sem er hræsnin. Ekkert er hulið sem eigi verður opinbert né leynt er eigi verður kunnugt. Því mun allt það sem þér hafið talað í myrkri heyrast í birtu, og það sem þér hafið hvíslað í herbergjum mun kunngjört á þökum uppi.
Það segi ég yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gert. Ég skal sýna yður hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann.
Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó gleymir Guð engum þeirra.Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Óttist ekki, þér eruð meira verðir en margir spörvar.
Sálmur 889
Fræið sem moldin felur
fyrir sinn dauða ber
ávöxtinn ótalfaldan.
Aldinið fórnar sér.
Þrúgan af limi lesin
lætur sitt rauða blóð.
Dýrt er það gjald sem drýpur
dag hvern í lífsins sjóð.
Uppspretta lífsins eina
öll nærir börnin sín.
Brauðið á Drottins borði,
bikarinn með hans vín,
boða það orð sem öllum
ætlar sinn deilda skammt.
Sköpun og fórnir fæða
fjölskyldu lífsins jafnt.
Eitt með öllu sem lifir
orð Guðs varð mannlegt hold.
Kristur kom til að verða
kornið, sem deyr í mold,
fórnin, sem af sér fæðir
frið, miskunn, sáttargjörð,
líf, sem frá dauða leysir
lýtta og seka jörð.
Dýrt var það gjald sem greiddi
Guðs son í lífsins sjóð
þegar hann lét til lausnar
líkama sinn og blóð.
Senn verður fórn hans fullnuð,
friðarins dagur rís,
mannkyn og málleysingjar
mætast í Paradís.
Sigurbjörn Einarsson