Allra heilagra messa – (1. nóv.) fyrsti sunnudagur í nóvember: Minningardagur hinna heilögu. Minning látinna.
Litur: Hvítur eða rauður.
Bæn dagsins:
Eilífi, trúfasti Guð. Þú kallar okkur til samfélags hinna heilögu sem á öllum tímum og á öllum stöðum vegsama nafn þitt. Við þökkum þér að við fáum að standa í fylkingu hinna trúuðu, saman tengd á grunni hinnar góðu játningar, í glöðu trausti þess að við munum fá að sjá þig augliti til auglitis. Þér sé lof að eilífu. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Dan 7.1-3, 13-18, 27
Á fyrsta stjórnarári Belsassars konungs í Babýlon dreymdi Daníel draum í rekkju sinni og sá sýnir. Hann skráði síðan drauminn og í upphafi frásagnarinnar greinir Daníel svo frá:
Í nætursýn minni sá ég hvernig himinvindarnir fjórir ýfðu hafið mikla. Og fjögur stór dýr komu upp úr hafinu, hvert öðru ólíkt.
Ég horfði á í nætursýnum
og sá þá einhvern koma á skýjum himins,
áþekkan mannssyni.
Hann kom til Hins aldna
og var leiddur fyrir hann.
Honum var falið valdið,
tignin og konungdæmið
og allir menn, þjóðir og tungur
skyldu lúta honum.
Veldi hans er eilíft
og líður aldrei undir lok,
á konungdæmi hans verður enginn endir.
Mér, Daníel, var mjög brugðið við þetta og stóð ógn af sýnunum sem fyrir mig bar.
Ég gekk þá til eins þeirra sem þarna stóðu og spurði hvað allt þetta merkti í raun. Hann svaraði og útskýrði þessa hluti þannig fyrir mér: „Þessi stóru dýr, fjögur að tölu, merkja fjögur konungdæmi sem koma munu fram á jörðinni en síðan munu hinir heilögu Hins æðsta hljóta konungsvaldið og halda konungdæminu að eilífu og um aldir alda.“
En konungsveldi, vald og tign allra konungsríkja undir himninum verður fengið hinum heilögu Hins æðsta. Konungdæmi þeirra verður eilíft konungdæmi og því munu öll ríki þjóna og hlýða.“
Pistill: Opb 21.9-11, 22-27
Nú kom einn af englunum sjö, sem héldu á skálunum sjö, sem fullar voru af síðustu plágunum sjö, og talaði við mig og sagði: „Kom hingað og ég mun sýna þér brúðina, eiginkonu lambsins.“ Og hann flutti mig í anda upp á mikið og hátt fjall og sýndi mér borgina helgu, Jerúsalem, sem steig niður af himni frá Guði. Hún hafði dýrð Guðs. Ljómi hennar var líkur dýrasta steini, sem jaspissteinn kristalskær.
Ég sá ekki musteri í henni því að Drottinn Guð, hinn alvaldi, er musteri hennar og lambið. Og borgin þarf hvorki sólar við né tungls til að lýsa sér því að dýrð Guðs skín á hana og lambið er lampi hennar. Og þjóðirnar munu ganga í ljósi hennar og konungar jarðarinnar færa henni auðæfi sín. Hliðum hennar verður ekki lokað um daga því að þar mun aldrei koma nótt. Dýrð og vegsemd þjóðanna mun flytjast þangað. Ekkert óhreint, enginn sem fremur viðurstyggð eða fer með lygi mun koma þangað inn heldur þeir einir sem ritaðir eru í lífsins bók, bók lambsins.
Guðspjall: Lúk 6.20-23
Þá hóf Jesús upp augun, leit á lærisveina sína og sagði:
„Sælir eruð þér, fátækir,
því að yðar er Guðs ríki.
Sælir eruð þér sem nú hungrar
því að þér munuð saddir verða.
Sælir eruð þér sem nú grátið
því að þér munuð hlæja.
Sælir eruð þér þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins.
Fagnið á þeim degi og leikið af gleði því að laun yðar eru mikil á himni og á sama veg fóru feður þeirra með spámennina.
Sálmur 204
Fyrir þá alla, er fá nú hvíld hjá þér,
en forðum trúarstyrkir börðust hér,
þér vegsemd, Jesús, þökk og heiður ber.
Hallelúja, hallelúja.
Þú varst þeim sjálfur varnarskjólið traust,
á voðans stund þeir heyrðu þína raust,
og geisli frá þér gegnum sortann braust.
Hallelúja, hallelúja.
Ó, mættum vér gegn heimi heyja stríð,
sem helgir vottar þínir fyrr og síð,
og öðlast krónu lífs, er lýkur hríð.
Hallelúja, hallelúja.
Þótt hugdirfð bregðist, hjartans kólni glóð,
ó, heyr! Í fjarska óma sigurljóð,
sem hjörtun styrkja, hressa dapran móð.
Hallelúja, hallelúja.
Í vestri kvöldsins bjarmi boðar frið,
og brátt fær hvíld hið þreytta, trúa lið,
og Paradísar heilagt opnast hlið.
Hallelúja, hallelúja.
Og sjá - þá aftur dýrri dagur skín,
er Drottinn kallar trúu börnin sín
til lífs í sælu, sem ei framar dvín.
Hallelúja, hallelúja.
How - Valdimar V. Snævarr