21. sunnudagur eftir trinitatis: Hertygi andans. /Ábyrgð í samfélaginu
Litur: Grænn.
Vers vikunnar:
Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu. (Róm 12.21)
Bæn dagsins:
Drottinn Guð, þú lætur sól þína renna upp yfir góða og vonda og villt að við elskum óvini okkar og andstæðinga. Gef okkur anda þinn, að við sigrum hið illa með góðu og dveljum í friði þínum í hverskyns átökum, fyrir Jesú Krist. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: 2Mós 23.1-9
Þú skalt ekki breiða út róg. Þú skalt ekki leggja þeim lið sem fer með rangt mál með því að bera ljúgvitni. Þú skalt ekki fylgja meirihlutanum til illra verka. Þú skalt ekki vitna gegn andstæðingi í neinni sök þannig að þú fylgir meirihlutanum og hallir réttu máli. Þú skalt ekki draga taum fátæks manns í málaferlum.
Rekist þú á villuráfandi naut eða asna óvinar þíns skaltu færa honum skepnuna aftur. Sjáir þú asna andstæðings þíns liggja uppgefinn undir byrðinni skaltu ekki láta hann afskiptalausan heldur rétta honum hjálparhönd.
Þú skalt ekki halla rétti fátæks manns sem hjá þér er þegar hann á í málaferlum.
Forðastu mál byggð á lygi og vertu ekki valdur að dauða saklauss manns og réttláts því að ég dæmi ekki sekan mann saklausan.
Þú skalt ekki þiggja mútur því að mútur blinda sjáandi menn og rugla málum þeirra sem hafa rétt fyrir sér.
Þú skalt ekki beita aðkomumann ofríki. Þið farið nærri um líðan aðkomumannsins því að þið voruð aðkomumenn í Egyptalandi
Pistill: Kól 2.1-7
Ég vil að þið vitið hversu hörð barátta mín er vegna ykkar og þeirra í Laódíkeu og allra þeirra sem hafa ekki séð mig sjálfan. Mig langar að allir uppörvist í hjörtum sínum, sameinist í kærleika og öðlist fulla sannfæringu og innsýn og geti gjörþekkt leyndardóm Guðs sem er Kristur.En í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.
Þetta segi ég til þess að enginn blekki ykkur með fagurgala. Ég er hjá ykkur í andanum þótt ég sé líkamlega fjarlægur og horfi með fögnuði á góða skipan hjá ykkur og festu ykkar í trúnni á Krist. Þið hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum. Verið rótfest í honum og byggð á honum, staðföst í trúnni, eins og ykkur hefur verið kennt, og auðug að þakklátsemi.
Guðspjall: Lúk 18.1-8
Þá sagði Jesús þeim dæmisögu um það hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast: „Í borg einni var dómari sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann. Í sömu borg var ekkja sem kom einlægt til hans og sagði: Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum. Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann. En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar áður en hún gerir út af við mig með nauði sínu.“
Og Drottinn mælti: „Heyrið hvað rangláti dómarinn segir. Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim? Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu þegar hann kemur?“
Sálmur 912
Góði Guð, er ég bið,
viltu gefa rósemd og frið.
Tak burt óró sem kringum mig er,
allan efa og kvíða frá mér.
Láttu kærleik þinn vinna sitt verk
svo að vonin og trúin sé sterk.
Gerðu börn þín að biðjandi hjörð
og að blessun alls mannkyns á jörð.
Herra, hjálpa þú mér
svo ég helgi lífið mitt þér.
Bæði tíminn og allt sem ég á
eru auðæfi komin þer frá.
Veit mér kærleik svo af þessum auð
gefi´ ég allslausum, hungruðum brauð.
Send mér, himneski faðir, þinn frið
er við fætur þér krýp ég og bið.
Guð, ég þakka vil þér,
að í þinni hendi ég er.
Þökk að ætíð þú leggurmér lið
er í lausnarans nafni ég bið.
Gef mér fúsleik svo fagnandi ég
dag hvern feti þinn hjálpræðis veg
uns þú opnar mér himinsins hlið
og mitt hjarta´ á um eilífð þinn frið.
Lilja Kristjánsdóttir