1. sunnudagur í aðventu - Drottinn kemur/ Hið nýja náðarár
Litur: Hvítur eða fjólublár.
Vers vikunnar:
Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll. (Sak 9.9)
Bæn dagsins:
Undursamlegi Guð sem kemur til okkar í syni þínum Jesú Kristi, ekki í valdi og krafti, heldur auðmjúkur og allslaus, ert þó máttugri en allt vald á jörðu. Gef öllum náð til að þekkja þig og taka á móti syni þínum þegar hann kemur svo að nótt okkar verði björt eins og dagur í ljósi hans. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexía: Jes 42.1-4
Sjá þjón minn sem ég styð,
minn útvalda sem ég hef velþóknun á.
Ég legg anda minn yfir hann,
hann mun færa þjóðunum réttlæti.
Hann kallar ekki og hrópar ekki
og lætur ekki heyra rödd sína á strætunum.
Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur
og dapran hörkveik slekkur hann ekki.
Í trúfesti kemur hann rétti á.
Hann þreytist ekki og gefst ekki upp
uns hann hefur grundvallað rétt á jörðu
og fjarlæg eylönd bíða boðskapar hans.
Pistill: 1Þess 3.9-13
Hvernig get ég nógsamlega þakkað Guði fyrir alla þá gleði er hann lét ykkur veita mér? Ég bið nótt og dag, heitt og af hjarta, að fá að sjá ykkur og bæta úr því sem áfátt er trú ykkar. Sjálfur Guð og faðir vor og Drottinn vor Jesús greiði veg minn til ykkar. En Drottinn efli ykkur og auðgi að kærleika hvert til annars og til allra eins og ég ber kærleika til ykkar. Þannig styrkir hann hjörtu ykkar svo að þið verðið óaðfinnanleg og heilög í augum Guðs, föður vors, þegar Drottinn vor Jesús kemur ásamt öllum sínum heilögu.
Guðspjall: Mrk 11.1-11
Þegar þeir nálgast Jerúsalem og koma til Betfage og Betaníu við Olíufjallið sendir Jesús tvo lærisveina sína og segir við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur. Um leið og þið komið þangað munuð þið finna fola bundinn sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann. Ef einhver spyr ykkur: Hvers vegna gerið þið þetta? þá svarið: Drottinn þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað.“ Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á strætinu og leystu hann. Nokkrir sem stóðu þar sögðu við þá: „Hvers vegna eruð þið að leysa folann?“
Þeir svöruðu eins og Jesús hafði sagt og þeir létu þá fara. Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín en hann settist á bak. Og margir breiddu klæði sín á veginn en aðrir lim sem þeir höfðu skorið af trjánum. Þeir sem á undan fóru og eftir fylgdu hrópuðu: „Hósanna. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs! Hósanna í hæstum hæðum!“ Jesús fór inn í Jerúsalem og í helgidóminn. Þar leit hann yfir allt en þar sem komið var kvöld fór hann til Betaníu með þeim tólf.
Sálmur: 801
Hans leið skal lögð með klæðum
og lyftast dalur hver,
því Guð úr himinhæðum
í honum kominn er
sem frelsun mönnum færir
og friðarvonir nærir.
Hann sinna vitja vill.
Þú veröld, konung hyll!
Vér höndum vorum veifum,
við veginn stígum dans
og grænum greinum dreifum
á götu frelsarans.
Og hróp vort Hósíanna!
er heilsan breyskra manna
sem böl og harmar hrjá
til hans sem lausnir á.
Kom, kom með blessun bjarta
og bægðu myrkri frá!
Inn, inn um hlið míns hjarta,
skal himnesk birta ná!
Upp, upp, nú lofgjörð ómi
með allra þjóða rómi
er saman syngjum vér:
Guðs sonur, dýrð sé þér!
F.M. Franzén - Svavar Alfreð Jónsson