Þjóðhátíðardagurinn 17. júní
Vers vikunnar:
„Ég mun ganga um mitt á meðal ykkar, vera Guð ykkar og þið verðið þjóð mín.“ (3Mós 26.12)
Kollekta:
Guð vors lands, vér þökkum þér fyrir landið, sem þú hefur gefið oss. Vér þökkum þér auðlegð landsins gæða, frjósama mold og fengsæl mið, tign og fegurð í stormum vetrar og blíðu sumars, ægikrafta elds og ísa, manndóm og menningu íslenskrar þjóðar. Vér þökkum þér að þú hefur vakað yfir þjóð vorri um aldir og gefið oss frelsi og fullveldi. Blessa oss gjafir þínar, hjálpa oss að varðveita þær og ávaxta oss til blessunar og niðjum vorum til heilla, í trúmennsku og ábyrgð. Ver þú ávallt Guð vors lands og faðir og frelsari allra landsins barna, í frelsarans Jesú nafni. Amen.
Lexía: Jer 32.38-41
Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá. Ég geri við þá ævarandi sáttmála um að ég snúi mér ekki frá þeim heldur reynist þeim vel. Ég legg guðsótta í hjarta þeirra svo að þeir víki aldrei frá mér. Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.
Pistill: 1Tím 2.1-4
Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn. Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara vorum, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.
Guðspjall: Matt 7.7-12
Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?
Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.
Sálmur 785
Yfir voru ættarlandi,
aldafaðir, skildi halt.
Veit því heillir, ver það grandi,
virstu' að leiða ráð þess allt.
Ástargeislum úthell björtum
yfir lands vors hæð og dal.
Ljós þitt glæð í lýðsins hjörtum,
ljós er aldrei slokkna skal.
Steingrímur Thorsteinsson,