4. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Samfélag syndaranna
4. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Samfélag syndaranna
Litur grænn
Vers vikunnar:
„Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ (Gal.6.2)
Bæn dagsins / kollektan
Miskunnsami Guð, hvert ættum við að leita ef skilningur og fyrirgefning væru ekki til, heldur
aðeins kuldi og harka og afskiptaleysi? Gefðu okkur hlutdeild í hjartagæsku þinni. Láttu
okkur finna miskunnsemi, og lifa í henni og iðka hana, eins og þú sýndir okkur í Jesú Kristi.
Amen.
Þriðja lestraröð
Lexían Sakaría 7. 8-10
Orð Drottins kom þá til Sakaría: Svo segir Drottinn allsherjar:
Fellið réttláta dóma
og sýnið hver öðrum miskunnsemi og samúð.
Níðist hvorki á ekkjum, munaðarleysingjum,
aðkomumönnum né fátæklingum
og hyggið ekki á ill ráð
hver gegn öðrum í hjarta yðar.
Pistillinn Róm. 14. 1-6
Takið á móti trúarveikum án þess að dæma skoðanir þeirra. Einn er þeirrar trúar að alls megi
neyta, annar er veikur í trúnni og neytir einungis jurtafæðu. Sá sem neytir skal ekki fyrirlíta
hinn sem neytir ekki og sá sem neytir ekki skal ekki dæma þann sem neytir því að Guð hefur
tekið á móti honum. Hvað átt þú með að dæma þjón annars manns? Hann stendur og fellur
herra sínum. Og hann mun standa því að megnugur er Drottinn þess að láta hann standa.
Einn gerir mun á dögum, annar metur alla daga jafna. Hver og einn fylgi sannfæringu
sinni. Sá sem þykist verða að taka tillit til þess hvaða dagur er gerir svo vegna Drottins. Og sá
sem neytir kjöts gerir það vegna Drottins því að hann gerir Guði þakkir. Hinn sem lætur
óneytt gerir svo vegna Drottins og færir Guði þakkir.
Guðspjallið Mt. 7. 1-5
Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd. Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð
þér dæmd verða og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. Hví sér þú flísina í
auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Eða hvernig fær þú sagt við
bróður þinn: Lát mig draga flísina úr auga þér? Og þó er bjálki í auga þínu. Hræsnari, drag
fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.
Sálmur Sb 730
1 Kærleikur Guðs er eins og úthafsströndin,
andvari' í grasi, friðsæl heimalönd.
En þér er frjálst að flýja yfir löndin
ef forðast viltu Drottins líknarhönd.
Kærleikur Guðs er eins og úthafsströndin,
andvari' í grasi, friðsæl heimalönd.
2 Vér glímum öll við lífsins stríðu strauma,
vor lausn í eigin frelsi bundin er:
Þar finnst ei tóm það rúmar dáð og drauma;
hin dýra jörð sem mestan ávöxt ber.
Kærleikur Guðs er eins og úthafsströndin,
andvari' í grasi, friðsæl heimalönd.
3 Samt er sem fólkið enn þá hlaða hljóti
í heimsku sinni múr í kringum sig.
Það fangahús er byggt af hræðslugrjóti
sem hindrar oss að lifa fyrir þig.
Kærleikur Guðs er eins og úthafsströndin,
andvari' í grasi, friðsæl heimalönd.
4 Ó, Drottinn minn, oss dæm í mildi þinni
að dómur vor sé fyrirgefning þín.
Hið sanna frelsi búið sálu minni
er sonur Guðs sem bætir meinin mín.
Kærleikur Guðs er eins og úthafsströndin,
andvari' í grasi, friðsæl heimalönd.
T Anders Frostenson 1968 – Kristján Valur Ingólfsson 1975, 2017