16.mars Gvendardagur
16.mars Gvendardagur
Litur rauður.
Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert
mér. Matt. 25.40b
Bæn dagsins / kollektan
Drottinn Jesús Kristur sem kvalinn og hæddur dóst á krossinum okkar vegna, við
biðjum þig: Vert þú með okkur þegar við erum niðurlægð og lítilsvirt vegna þín svo að
við finnum nálægð þína allt þar til þú kemur aftur í dýrð. Þú sem með föðurnum og
heilögum Anda lifir og ríkir frá eilífð til eilífðar.
Lexía Sálm. 116. 15, 17-19
Dýr er í augum Drottins
dauði dýrkenda hans.
Drottinn, víst er ég þjónn þinn,
ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar,
þú leystir fjötra mína.
Ég færi þér þakkarfórn,
ákalla nafn Drottins.
Ég greiði Drottni heit mín
og það í augsýn alls lýðs hans,
í forgörðum húss Drottins,
í þér, Jerúsalem, Hallelúja.
Pistill 2. Tím.2. 8-13
Minnst þú Jesú Krists, hans sem er risinn upp frá dauðum, af kyni Davíðs, eins og
boðað er í fagnaðarerindi mínu. Fyrir það líð ég illt og það jafnvel að vera í fjötrum
eins og illvirki. En orð Guðs verður ekki fjötrað. Þess vegna þoli ég allt sakir hinna
útvöldu til þess að einnig þeir hljóti hjálpræðið í Kristi Jesú. Það orð er satt:
Ef vér höfum dáið með honum,
þá munum vér og lifa með honum.
Ef vér erum staðföst,
þá munum vér og með honum ríkja.
Ef vér afneitum honum,
þá mun hann og afneita oss.
Þótt vér séum ótrú,
þá verður hann samt trúr,
því að ekki getur hann afneitað sjálfum sér.
Guðspjall Mt. 23. 34-39
Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð
þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg.
Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði
Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins
og altarisins.
Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.
Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til
þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum
undir vængi sér, og þér vilduð eigi. Hús yðar verður í eyði látið. Ég segi yður: Héðan
af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: Blessaður sé sá sem kemur, í nafni
Drottins.