5. sunnudagur eftir þrettánda
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Hann [Drottinn] mun leiða það í ljós sem í myrkrinu er hulið og afhjúpa allt sem í hjarta dylst.“ (1Kor 4.5)
Kollekta:
Vér biðjum þig, Drottinn: Varðveit þú með stöðugri föðurelsku söfnuð þinn, sem vonar á þig. Lát hann ávallt njóta verndar þinnar. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Slm 37.3-6
Treyst Drottni og ger gott,
þá muntu óhultur búa í landinu.
Njót gleði í Drottni,
þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir.
Fel Drottni vegu þína og treyst honum,
hann mun vel fyrir sjá.
Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós
og rétt þinn sem hábjartan dag.
Pistill: Kól 3.12-17
Íklæðist því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.
Látið frið Krists ríkja í hjörtum ykkar því að Guð kallaði ykkur til að lifa saman í friði sem limi í einum líkama. Verið þakklát.
Látið orð Krists búa með ykkur í allri sinni auðlegð og speki. Fræðið og áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Hvað sem þið segið eða gerið, gerið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður með hjálp hans.
Guðspjall: Matt 13.24-30
Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim: „Líkt er um himnaríki og mann er sáði góðu sæði í akur sinn. En er menn voru í svefni kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt kom illgresið og í ljós. Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið? Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gert. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu að við förum og reytum það? Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið gætuð þið slitið upp hveitið um leið. Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því en hirðið hveitið í hlöðu mína.“
Sálmur: 118
Minn Jesús, kunnugt það er þér,
hve þrátt sá óvin ræðst að mér,
er vill í glötun svíkja sál,
frá sannleiks orðum beygja mál,
frá verki réttu hefta hönd
og hneppa líf í synda bönd.
Lát hann ei geta hindrað mig,
ó, herra, frá að lofa þig,
lát aldrei því fá hamlað hann,
að heyrt ég geti sannleikann,
lát hann ei blekkja sálarsjón
og svik hans önd ei búa tjón.
Ef fellir hann mig, fljótt mig reis,
ef fjötrar hann mig, brátt mig leys,
ef villir hann mig, blítt mér bend,
ef blindar hann mig, ljós mér send,
ef skelfir hann mig, legg mér lið,
ef lokkar hann mig, þú mig styð.
Ó, lækna, Jesús, líf mitt allt,
ó, lát það vermast, sem er kalt,
það vökva fá, sem visna fer,
það verða hreint, sem flekkað er,
það auðgast, sem er aumt og snautt,
það endurlifna, sem er dautt.
Sb. 1886 – Helgi Hálfdánarson