5. sunnudagur páskatímans (Rogate) – Hinn almenni bænadagur Biðjandi kirkja
Litur: Hvítur.Vers vikunnar:
„Lofaður sé Guð er hvorki vísaði bæn minni á bug né tók frá mér miskunn sína.“ (Slm 66.20)
Kollekta:
Almáttugi Guð sem gefur allt hið góða. Við biðjum þig: Laða með anda þínum huga okkar til að hugsa það eitt sem er rétt og veita okkur leiðsögn til að framkvæma það. Fyrir son þinn Jesú Krist frelsara okkar og Drottin sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jer 29.11-14a
Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn.
Pistill: 1Tím 2.1-6a
Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn. Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara vorum, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.
Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús sem gaf sjálfan sig til lausnargjalds fyrir alla.
Guðspjall: Jóh 16.23b-30
[Jesús sagði:] Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.
Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur að ég tala ekki framar við yður í líkingum heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki að ég muni biðja föðurinn fyrir yður því sjálfur elskar faðirinn yður þar eð þér hafið elskað mig og trúað að ég sé frá Guði kominn. Ég er kominn í heiminn frá föðurnum. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.“
Lærisveinar hans sögðu: „Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum við að þú veist allt og þarft eigi að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum við að þú sért frá Guði kominn.“
Sálmur: 162
Biðjið – og þá öðlist þér,
eftir Jesú fyrirheiti.
Hans í nafni biðja ber,
bænin svo þér fullting veiti.
Bænin sé þér indæl iðja,
öðlast munu þeir, sem biðja.
Leitið – og þér finnið fljótt
frið í yðar mæddu hjörtum.
Drottinn gegnum dimma nótt
dreifir náðargeislum björtum.
Hann mun frið og frelsi veita,
finna munu þeir, sem leita.
Knýið á, – þá opnar sig
ástríkt Drottins föðurhjarta
og við dauðans dimma stig
dýrðarinnar höllin bjarta.
Í Guðs náðar arma flýið,
upp mun lokið, þá þér knýið.
Brun –Valdimar Briem